Erlent

Níutíu prósent vissir um að sprengja hafi grandað vélinni

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
224 manns voru um borð í vélinni og enginn lifði af.
224 manns voru um borð í vélinni og enginn lifði af. Vísir/EPA
Sérfræðingar sem rannsaka orsakir þess að rússneska farþegaþotan fórst á Sinaí-skaga á Egyptalandi um síðustu helgi segjast níutíu prósent vissir um að sprengja hafi grandað vélinni. Torkennilegt hljóð hafi heyrst á upptökum úr flugrita sem bendi til þess að um sprengju hafi verið að ræða.

Fréttastofa Reuters hefur þessar upplýsingar frá ónafngreindum heimildarmanni úr rannsóknarteyminu en hingað til hafa engin afgerandi svör fengist frá rannsóknarnefndinni um ástæður þess að vélin fórst.

Formaður nefndarinnar, Ayman al-Muqaddam, tilkynnti í gær að svo virtist sem vélin hafi brotnað á flugi og að einkennilegt hljóð hefði heyrst á upptökum flugrita. Hann vildi þó ekki draga neinar ályktanir um hvað raunverulega olli því að vélin hrapaði.

Tvö hundruð tuttugu og fjórir létu lífið þegar vélin fórst en talið er að hryðjuverkamenn á vegum ISIS hafi grandað vélinni.

Þúsundir komast ekki heim

Nú eru um áttatíu þúsund rússneskir ferðamenn og tuttugu þúsund breskir ferðamenn strandaglópar í Egyptalandi eftir að stjórnvöld þessara landa ákváðu að stöðva allt áætlunarflug til landsins í lok síðustu viku.

Bresk stjórnvöld byrjuðu í gær að flytja ferðamenn heim en það kann að taka nokkra daga að klára það verkefni. Þá hafa Rússar náð að flytja ellefu þúsund ferðamenn frá Egyptalandi síðasta sólarhring, en þeir hafa meðal annars notast við herflutningavélar til að ná í farangur ferðamanna.


Tengdar fréttir

Rússar fordæma skopmyndir í Charlie Hebdo

Stjórnvöld í Rússlandi hafa fordæmt skopmyndir sem birtust í nýjasta tímariti Charlie Hebdo af flugslysinu á Sinæ skaga um síðustu helgi.

Bretar hætta flugi yfir Sínaí

Rússar og Egyptar segja viðbrögð Breta óþarflega harkaleg. Bíða eigi niðurstöðu rannsóknar áður en ályktanir eru dregnar um hrap farþegavélar yfir Sínaískaga um síðustu helgi. 224 fórust með flugvélinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×