Erlent

Putin stöðvar flug til Egyptalands

Samúel Karl Ólason skrifar
Breskir ferðamenn hafa beðið lengi á flugvellinum í Sharm el-Sheikh.
Breskir ferðamenn hafa beðið lengi á flugvellinum í Sharm el-Sheikh. Vísir/EPA
Vladimir Putin, forseti Rússlands, hefur ákveðið að stöðva allar flugferðir frá Rússlandi til Egyptalands. Ákvörðunin er tekin í kjölfar þess að farþegaflugvél fórst yfir Sinaiskaga á föstudaginn á leið frá Sharm el-Sheikh til St. Pétursborgar. 224 létu lífið.

Flugferðirnar muni ekki hefjast að nýju fyrr en ljóst er hvers vegna flugvélin fórst.

Hlutar vélarinnar hafa nú verið fluttir til Moskvu þar sem rannsaka á hvort að finna megi leifar af sprengiefni á þeim.

Yfirvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa nú í nokkra daga haldið því fram að vélin hafi „líklega“ farist vegna sprengjuárásar. Rússar og Egyptar segja þær yfirlýsingar þó ótímabærar. Bretar höfðu stöðvað allar flugferðir til Sharm el-Sheikh, en bann Rússa nær yfir allt Egyptaland.

Hundruð ferðamanna frá Bretlandi sitja nú fastir í Egyptalandi, en einhver flugferðir hafa verið farnar til Bretlands. Hins vegar mega ferðamennirnir eingöngu fara með handfarangur um borð í vélarnar og verður farangur þeirra fluttur seinna.

Yfirvöld í Egyptalandi stöðvuðu þó vélarnar og ljóst er að einungis átta ferðir verða farnar í dag, en þær áttu að vera 29. Mikil reiði ríkir á flugvellinum þar sem margir hafa þurft að dúsa lengi og sjá ekki fram á að komast heim í bráð.


Tengdar fréttir

Bretar hætta flugi yfir Sínaí

Rússar og Egyptar segja viðbrögð Breta óþarflega harkaleg. Bíða eigi niðurstöðu rannsóknar áður en ályktanir eru dregnar um hrap farþegavélar yfir Sínaískaga um síðustu helgi. 224 fórust með flugvélinni.

Ólafur vottar Pútín samúð þjóðarinnar

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur sent samúðarkveðjur frá sér og íslensku þjóðinni til Vladimirs Putin forseta Rússlands í kjölfar þess að rússnesk flugvél hrapaði til jarðar yfir Egyptalandi og 224 farþegar týndu lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×