Menning

Nafn hennar flaug yfir Bandaríkin á einni nóttu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Mér fannst ég þurfa að koma efninu frá mér,“ segir Hrafnhildur Schram sem er bæði höfundur bókarinnar Nína S og sýningarstjóri sýningarinnar Listin á hvörfum í Listasafni Íslands.
"Mér fannst ég þurfa að koma efninu frá mér,“ segir Hrafnhildur Schram sem er bæði höfundur bókarinnar Nína S og sýningarstjóri sýningarinnar Listin á hvörfum í Listasafni Íslands. Vísir/GVA
„Það var eitthvað sem heillaði mig við Nínu og ég byrjaði fyrir mörgum árum að safna heimildum um hana, enda lítið vitað um hana hér. Listamenn sem búa lengi erlendis, eins og hún, eiga á hættu að gleymast, því fannst mér ég þurfa að koma þessu efni frá mér,“ segir Hrafnhildur Schram listfræðingur.

Hún er höfundur nýrrar bókar um Nínu Sæmundsson myndlistarkonu sem Crymogea gefur út á morgun. Samtímis er sýningin Listin á hvörfum opnuð í Listasafni Íslands með verkum Nínu, þar er Hrafnhildur líka sýningarstjóri. 

Hrafnhildur kveðst hafa farið til þeirra borga sem Nína hafði búið í og talað við fólk sem þekkti hana, meðal annars sambýliskonu hennar í Kaliforníu, Polly James. Þannig hafi hún fengið heimildir frá fyrstu hendi.

„Nína skildi strax hvað hún þyrfti til að koma sér á framfæri þegar hún kom til New York, líkt og nútímalistamenn í dag, og komst í samband við sýningarsali og gallerí.

Hún uppskar heilmikla athygli fyrir að vera fyrsta íslenska konan sem leggur fyrir sig höggmyndalist og vann til verðlauna í New York. Gerði lágmynd í anddyri þekkts hótels, The Waldorf Astoria, og nafn hennar flaug yfir Bandaríkin á einni nóttu.

Reyndar var hún áður búin að slá í gegn í París. Fékk stór verðlaun á haustsýningunni þar 1924, fyrir verkið Móðurást, sem stendur niðri í Lækjargötu,“ lýsir Hrafnhildur. 

Nína giftist ekki og á enga afkomendur.

„En hún átti íslenskan unnusta á námsárunum í Kaupmannahöfn, Gunnar Thorsteinsson, bróður Muggs málara,“ segir Hrafnhildur.  „Gunnar og Nína veiktust bæði af lungnaberklum og hann dó á berklahæli í Danmörku meðan hún barðist fyrir lífi sínu á sams konar hæli í Sviss, þar sem hún dvaldi í hálft annað ár en náði sér aldrei.“

Þótt Nína yrði þannig fyrir ýmsum áföllum í lífinu var það ekki fyrr en hún flutti aftur heim til Íslands sem hún mætti skilningsleysi vegna listsköpunar sinnar.

Rammast kvað að því þegar stytta hennar,  Hafmeyjan, var sprengd upp í Reykjavíkurtjörn.

„Sá atburður fékk mjög á Nínu,“ segir Hrafnhildur. „Hún tjáði sig ekki fyrr en mörgum árum síðar um það óhæfuverk en sagði þá að eitthvað hefði dáið innra með henni. Þetta var mikið áfall, ekki bara fyrir hana heldur marga landsmenn að svona skyldi gerast í okkar litla samfélagi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×