Bærinn Mheen liggur á milli Damascus og borgarinnar Homs, steinsnar frá þjóðvegi sem tengir Damascus við yfirráðasvæði hersins í norðurhluta Sýrlands, eins og sjá má á kortinu hér að neðan. Sem svo oft áður notuðu vígamennirnir sjálfsmorðsárásir til að veikja stöðu verjenda Mheen áður en árásin hófst.

Á meðan ISISliðar sækja fram gegn hernum nærri Damascus, heldur sókn hersins gegn uppreisnarhópum og íslamistum áfram norðar í Sýrlandi. Bandaríkin tilkynntu nýverið að sérsveitarmenn yrðu sendir til aðstoðar Kúrda í norðausturhluta Sýrlands, þar sem þeir berjast gegn Íslamska ríkinu.
Þar að auki ætla Bandaríkin að fjölga loftárásum.
Reuters fréttaveitan segir að á meðan unnið er að því að fá deiluaðila til að setjast að samningaborðinu, sé lítið útlit fyrir að svo verði á meðan harðir bardagar geisa víða í Sýrlandi. Sérfræðingar segja að allir aðilar reyni nú að stækka yfirráðasvæði sitt svo staða þeirra verði betri í mögulegum viðræðum.