Erlent

Segja árásarmanninn vera á móti fóstureyðingum

Samúel Karl Ólason skrifar
Kransar og blóm hafa verið lögð við heilsugæslustöðina.
Kransar og blóm hafa verið lögð við heilsugæslustöðina. Vísir/Getty

Forsvarsmenn samtakanna Planned Parenthood segja mann sem myrti þrjá á heilsugæslustöð þeirra í Colorado Springs á föstudaginn, vera mótfallinn fóstureyðingum. Þegar hann var handtekinn af lögreglu mun hann hafa sagt „No more baby parts“, eða „ekki fleiri líkamshluta barna“. Maðurinn gekk inn á heilsugæslustöð samtakanna, þar sem fóstureyðingar eru meðal annars framkvæmdar, og hóf skothríð.

Planned parenthood hafa orðið fyrir mikilli gagnrýni síðustu misseri eftir að samtök sem berjast gegn fóstureyðingum birtu myndband sem þeir segja að sýni starfsmenn PP ræða um sölu fóstra vegna læknisfræðilegra rannsókna. Það er ólöglegt í Bandaríkjunum en þessum ásökunum hefur verið neitað af PP.

Robert Lewis Dear myrti þrjá og særði nokkra í árás sinni.Vísir/EPA

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar hefur hótunum gegn heilsugæslustöðvum PP fjölgað í kjölfar birtingar myndbandsins.

Planned parenthood eru góðgerðarsamtök sem reka um 700 heilsugæslustöðvar fyrir konur víðsvegar í Bandaríkjunum. Þar fara meðal annars fram fóstureyðingar og krabbameinsleit.

Ríkisstjóri Colorado hefur biðlað til deiluaðila að draga úr áróðri sínum. John Hickenlooper telur að þessi árás og önnur atvik megi rekja til áróðurs aðila á báðum hliðum málsins.

Árásarmaðurinn heitir Robert Lewis Dear og er 57 ára gamall. Nágranna hans lýsa honum sem einfara. Hann er sagður forðast augnsamband við annað fólk. Þá varaði hann fólk við því að ríkisstjórn Bandaríkjanna njósnaði um þau.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×