Erlent

Rússar búa sig undir fleiri árásir á herþotur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mótmælandi kastar grjóti í áttina að tyrkneska sendiráðinu í Moskvu.
Mótmælandi kastar grjóti í áttina að tyrkneska sendiráðinu í Moskvu. Nordicphotos/AFP
Rússar hyggjast flytja öflug og háþróuð loftvarnarkerfi til Sýrlands, til að verjast frekari árásum á rússneskar herþotur. Þá ætla Rússar einnig að senda herskip til Miðjarðarhafsins í sama tilgangi.

Þetta eru viðbrögð Rússa við því sem gerðist á þriðjudag, þegar Tyrkir skutu niður rússneska herþotu sem var að skjóta flugskeytum á uppreisnarmenn í Sýrlandi.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir hætt við því að fleiri atvik af svipuðu tagi geti orðið á næstunni: „Ef það gerist, þá verðum við að geta brugðist við,“ sagði Pútín við blaðamenn í gær.

Leiðtogar Vesturlanda hafa hvatt bæði Rússa og Tyrki til að láta ástandið ekki fara úr böndunum.

Ahmet Davatoglu, forsætisráðherra Tyrklands, sagði Tyrki alls ekki hafa neinn áhuga á að slíta stjórnmálasambandi við Moskvu. Þvert á móti, því Rússland væri „vinur okkar og nágranni“.

Tyrkjum og Rússum ber reyndar engan veginn saman um það sem gerðist. Tyrkir segjast ítrekað hafa varað rússneskar herþotur við því að rjúfa tyrkneska lofthelgi, en Rússar segjast aldrei hafa farið inn fyrir lofthelgina.

Rússneskar herþotur af gerðinni Su-24, eins og sú sem skotin var niður.Nordicphotos/AFP
Tveir flugmenn rússnesku herþotunnar skutu sér út í fallhlíf. Uppreisnarsveitir Túrkmena í Sýrlandi hafa viðurkennt að hafa skotið á mennina meðan þeir voru á leið til jarðar í fallhlífunum.

Rússar segja annan þeirra hafa látið lífið en hinn er kominn til Rússlands og ræddi við blaðamenn í gær.

Flugmaðurinn neitar því að hafa fengið viðvaranir frá Tyrkjum áður en þotan var skotin niður.

Á korti yfir flug rússnesku herþotunnar, sem Tyrkir hafa sjálfir lagt fram, sést að hún var einungis í sautján sekúndur innan tyrknesku lofthelginnar. Þá sést einnig á kortinu að þotan hafi verið á flugi yfir tæplega þriggja kílómetra breiða landspildu sem tilheyrir Tyrklandi en teygir sig inn í Sýrland.

Á undanförnum misserum hafa rússneskar herþotur satt að segja ítrekað rofið lofthelgi Evrópulanda. Algengast eru atvik af þessu tagi í Eystrasaltinu og í Svartahafi.

Tyrkir segjast ítrekað hafa kallað sendiherra Rússlands á sinn fund til að mótmæla slíkum atvikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×