Erlent

Þriggja daga þjóðarsorg í Malí

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Franskir hermenn tóku þátt í aðgerðum hersins í Malí þegar hátt á annað hundrað manns var bjargað úr klóm gíslatökumanna á hóteli í höfuðborginni Bamako.
Franskir hermenn tóku þátt í aðgerðum hersins í Malí þegar hátt á annað hundrað manns var bjargað úr klóm gíslatökumanna á hóteli í höfuðborginni Bamako. vísir/epa
Tíu daga neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Malí vegna árásanna í gær. Nítján biðu bana og tugir særðust þegar gíslatökumenn réðust inn á hótel í Bamako, höfuðborginni, og tóku á annað hundrað manns gíslingu. Þá hefur forsetinn, Ibrahim Boubacar Keita, lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg í landinu.

Vígamenn úr röðum íslamista eru sagðir hafa lýst yfir ábyrgð á gíslatökunni. Að sögn BBC er um að ræða Al Kaída og samtök sem nefnast Al Murabitun, sem einnig hafa tengsl við Al Kaída.

Árásin átti sér stað á Radison Blu, lúxushóteli í höfuðborginni. Vitni segja gíslatökumennina hafa verið þrettán talsins, þeir hafi ekið upp að hótelinu á bifreiðum með númeraplötur frá sendiráðum og byrjað að skjóta öryggisverði utan við hótelið.

Forsetinn hefur fordæmt árásina, og segist ætla að gera allt sem í hans valdi standi til að uppræta hryðjuverkahópa.


Tengdar fréttir

Tugir létust á hóteli í Malí

Margir taldir hafa látið lífið í átökum þegar herinn réðst inn á hótel í Malí til að frelsa 170 gísla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×