Menning

Skrifar fyrir almenning og fornleifafræðinga

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Bjarni kampakátur með lóð úr klébergi sem fannst í Hólmi. Hún er önnur af tveimur frá landnámsöld sem fundist hafa á Íslandi. Hina fann Bjarni í Reykjavík.
Bjarni kampakátur með lóð úr klébergi sem fannst í Hólmi. Hún er önnur af tveimur frá landnámsöld sem fundist hafa á Íslandi. Hina fann Bjarni í Reykjavík. Vísir/GVA
Það er gaman að koma í Fornleifastofuna til Bjarna F. Einarssonar. Rokkur ömmu hans, risahátalarar, jafnvel flöskurnar í glugganum – allt á sína sögu. Kaffivélin er þó enginn forngripur heldur gefur kost á nýmóðins tegundum.

Við tyllum okkur niður til að ræða nýútkomna bók Bjarna sem byggist mest á landnámsbænum Hólmi í Nesjum í Hornafirði sem hann hóf leit að árið 1997 og lagðist út tólf sumur til að rannsaka. Hann kveðst þó alltaf hafa haft húsaskjól, ýmist í íþróttahúsi, matvinnslufyrirtæki eða á einkaheimili.

„Það er hlutskipti manns sem stundar svona vísindarannsóknir að vita aldrei hvaða næturstað hann fær,“ segir hann glaðlega. „Ég er sérfræðingur í að aðlagast allskyns dýnum við mismunandi aðstæður og hef vaknað upp í snjókomu í tjaldi sem hefur fokið ofan af mér.“

Bjarna varð fljótt ljóst að mannvistarleifar sem hann fann í Nesjum væru frá fyrstu dögum Íslandsbyggðar.

„Í blóthúsi fundum við gjóskulag frá því um árið 871 og merki um líf rétt ofan á því. Ég hef aldrei útilokað að bærinn kunni að hafa verið til mjög snemma, við fundum mannvirki undir gjóskulagi frá 910.“ En fann hann einhverja dýrgripi?

„Það er varasamt að bera saman íslenska gripi og erlenda því verðgildi snýst um framboð og ódýr perla úti í Evrópu getur verið rándýr á Íslandi. Samkvæmt íslenskum veruleika fundust dýrgripir í Hólmi. Þeirra helstir eru perlur úr gleri og rafi og lóð úr klébergi. Slíkar lóðir hafa bara fundist tvær á Íslandi frá landnámsöld svo þær eru að minnsta kosti dýrgripir hvað varðar fornleifafræðina.“



Ein af perlunum sem fannst í Hólmi. Hún er úr rafi.Vísir/GVA
Bjarni segir erlenda sjálfboðaliða sækjast eftir að vinna við fornleifauppgröft á Íslandi, ekki síst ef um víkingaöld er að ræða, þess hafi hann notið við rannsóknirnar á Hólmi. Áhugi á verkefninu hafi líka verið mikill hjá heimamönnum og nemum í fornleifafræði. En hvað um fjölskyldu hans? „Konan mín var með mér stundum og dóttir mín líka, hún var unglingur þá en fulltíða í dag. Svona staður gleypir talsvert stóran hluta af starfsævi manns. Á fimmtán ára tímabili kom ég eins og farfugl til Hafnar á vorin með hóp, Hornfirðingar hljóta að sakna gengisins sem kom árlega að róta í moldinni inni í Nesjum!“

Þó Hólmur sé í aðalhlutverki í bókinni og fólkið þar, er allt Ísland undir enda koma allar landnámsrannsóknir þar við sögu, að sögn Bjarna.

„Bókin er sett í samhengi við íslenskan veruleika og sögusviðið er líka Skandinavía, Rússland, Bretlandseyjar, Miðjarðarhafið, meira að segja Afríka því heimur víkinga var svo stór,“ segir hann en sér hann fyrir sér að hún verði kennslubók?

„Þú verður að spyrja aðra um það,“ svarar hann. „Hún er skrifuð fyrir almenning og fornleifafræðinga. Hún er skrifuð fyrir fólk.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×