Enski boltinn

Schweinsteiger gæti verið á leiðinni í þriggja leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bastian Schweinsteiger og Winston Reid.
Bastian Schweinsteiger og Winston Reid. Vísir/Getty
Þýski miðjumaðurinn Bastian Schweinsteiger hjá Manchester United hefur verið kærður af aganefnd enska knattspyrnusambandsins fyrir framgöngu sína í leik Manchester United og West Ham um helgina.

Bastian Schweinsteiger lenti saman við Winston Reid, varnarmann West Ham, á 40. mínútu leiksins.

Schweinsteiger gaf Winston Reid olnbogaskot í hálsinn með vinstri hendi en dómararnir sáu það ekki. Schweinsteiger virtist horfa á Reid áður en hann reiddi til höggs.

Mark Clattenburg, dómari leiksins, talaði við báða leikmenn eftir atvikið en hvorugur fékk refsingu og Clattenburg minntist heldur ekki á atvikið í skýrslu sinni.

Winston Reid var ekki sáttur eftir leikinn og sakaði Schweinsteiger um að hafa gert þetta viljandi. Knattspyrnustjóri hans, Slaven Bilic, tók undir það.

Schweinsteiger fær tækifæri til hádegis á fimmtudag til að koma með sína hlið á málinu.

Verði Schweinsteiger dæmdur sekur þá er hann á leiðinni í þriggja leikja bann sem væru slæmar fréttir fyrir Manchester United liðið enda hefur Þjóðverjinn verið að spila vel að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×