Erlent

Fjölmargir heiðra minningu Reevu Steenkamp

Birgir Olgeirsson skrifar
June Steenkamp er hér föðmuð af ættingja þegar niðurstaða áfrýjunardómstólsins í Suður-Afríku var ljós fyrr í dag.
June Steenkamp er hér föðmuð af ættingja þegar niðurstaða áfrýjunardómstólsins í Suður-Afríku var ljós fyrr í dag. Vísir/EPA
Refsing yfir suður afríska spretthlauparanum OscarPistorius verður líklegast ákveðin í janúar eða febrúar. Þangað til verður hann í stofufangelsi heima hjá föðurbróður sínum í Pretoríu, höfuðborgar Suður-Afríku, eftir að áfrýjunardómstóll breytti dómi yfir honum fyrir að skjóta sambýliskonu sína ReevuSteenkamp til bana í febrúar árið 2013, nánar tiltekið aðfaranótt valentínusardagsins.

Hann hafði áður verið dæmdur fyrir manndráp af gáleysi og dæmdur til fimm ára fangelsisvistar. Hann hafði afplánað eitt ár í fangelsi og átti að afplána restina í stofufangelsi. Áfrýjunardómstóllinn ákvað í dag að breyta dómnum frá manndrápi af gáleysi yfir í morð.

Reeva Steenkamp.Vísir/EPA
Pistorius skaut Steenkamp í gegnum baðherbergishurð á heimili þeirra í Pretoríu en hann hefur ávallt sagst hafa gert þau mistök að telja Steenkamp hafa verið innbrotsþjóf. Var það álit eins dómarans að Pistorius hefði átt að gera sér grein fyrir því að skjóta fjórum skotum í gegnum baðherbergishurð myndi leiða til dauðsfalls.

Hann verður leiddur aftur fyrir dómara í janúar eða febrúar þar sem refsing yfir honum verður ákveðin en minnsta mögulega refsingin fyrir morð í Suður-Afríku er fimmtán ára fangelsisvist.

Þá gera lög Suður-Afríku ekki ráð fyrir því að mögulegt sé að vera í stofufangelsi lengur en í fimm ár og því er ljóst að Pistorius er aftur á leið í fangelsi.

Móðir Reevu, JuneSteenkamp, sást ganga út úr dómhúsinu í dag með eina rauða rós eftir að dómnum hafði verið breytt. June hafði mótmælt upprunalega dómnum yfir Pistorius harðlega og þá gagnrýndi hún einnig að honum hefði verið sleppt úr fangelsi í september eftir aðeins eins árs vist.


Tengdar fréttir

Dómi Pistorius breytt í morð

Áfrýjunardómstóll Suður Afríku úrskurðaði að fyrri dómurinn yfir Pistorius hafi verið gallaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×