Menning

Almar á eftir að upplifa tilfinningar í kassanum sem hann hefur aldrei fundið áður

Birgir Olgeirsson skrifar
Sérfræðingur í einangrunarvist er sannfærður um að Almar eigi eftir að þrauka vikuna í kassanum.
Sérfræðingur í einangrunarvist er sannfærður um að Almar eigi eftir að þrauka vikuna í kassanum. Vísir/Youtube
Myndlistarneminn Almar Atlason er á sínum fjórða degi í glerkassanum góða þar sem hann ætlar að dvelja nakinn í heila viku. Hafa margir velt fyrir sér hvort að Almar muni endast heila viku í kassanum en afbrotafræðingurinn og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, Helgi Gunnlaugsson, er sannfærður um að Almar muni halda þetta út. Hins vegar segist Helgi alveg vissum að Almar eigi eftir að upplifa tilfinningar innra með sér í kassanum sem hann hann hefur ekki fundið áður.

Helgi er margfróður um einangrunarvist sem afbrotafræðingur en þá í sambandi við gæsluvarðhald og einangrun fanga, sem hann segir brjóta manneskjur hægt og rólega niður. „Sumir brotna niður eftir örfáa daga en það getur liðið lengri tími hjá öðrum. Menn brotna alveg saman og játa á sig hvað sem er. Yfirleitt er einangrunarvist í fangelsi bundin við menn sem eru ásakaðir um alvarlegan glæp og menn í rauninni játa á sig hvað sem er, jafnvel Njálsbrennu ef út í það er farið, eftir, ekki marga daga. Þetta er alveg vitað og hefur verið rannsakað ofan í kjölinn,“ segir Helgi.

Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Vísir/Pjetur
Slík einangrunarvist er að sjálfsögðu þvinguð á menn, henni fylgir skömm og niðurlæging og hugsanir um að lífinu sé lokið. Hún verður því aldrei borin saman við þá einangrun sem Almar hefur sjálfur sett sig í, þar sem hann hann er þokkalega vel haldinn, með fæði og leiðir til að losa sig við úrgang. Einnig getur hann átt í samskiptum við fólk þó svo að hann tjái sig ekki með orðum. Helgi bendir þó á að fangar í einangrun hafi meira rými en Almar, geta gengið um og teygt úr sér og fá auk þess klukkutíma á dag í útivista. Almar leyfir sér það hins vegar ekki og er auk þess í rými á stærð við fiskabúr.

Vísi lá forvitni á að vita hvað áhrif svona einangrun hefur á andlega ástand Almars, og þekkir Helgi vel inn á slíkt. „Ég held að hann eigi eftir að uppgötva að þetta er að mörgu leyti íþyngjandi. Þetta er ekki bara dans á rósum. Ég er alveg sannfærður um að hann uppgötvar að það eru allskonar tilfinningar sem fara í gang sem hann hafði ekki fundið áður. Það kemur væntanlega í ljós þegar hann fer að gera upp þetta verkefni að hann raunverulega upplifði einhverja veggi og hvort hann ætti ekki að hætta þessu,“ segir Helgi.

Hann segir Almar þó í ákveðnu stjörnuhlutverki inni í kassanum. Þessum gjörningi er streymt í beinni útsendingu á myndbandavefnum YouTube og er mikil umræðu um Almar í samfélagi og segir Helgi að þessi fimmtán mínútna frægð muni hjálpa honum í gegnum þessa veru í kassanum og að Almar muni þrauka út þessa viku.

„Samt er ég alveg viss um að hann upplifi tilfinningar sem hann hefur ekki fundið áður og spurningar hvort hann eigi að fara alveg í gegnum þetta ferli. En ég held að stundarfrægðin gæti hjálpað honum alla leið í gegnum þetta verkefni, að fá svona mikla frægð og athygli út á þetta,“ segir Helgi sem og bætir við í lokin að þessi gjörningur Almars sé afar áhugaverður.





Bein útsending

Tengdar fréttir

Mismunandi stellingar Almars - GIF

Almar Atlason, 23 ára myndlistarnemi, hefur núna verið í þrjá sólahringa inni í glerkassa í húsakynnum Listaháskóla Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.