Fótbolti

Kjartan Henry vill komast í dönsku úrvalsdeildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kjartan hefur verið iðinn við kolann á þessu ári.
Kjartan hefur verið iðinn við kolann á þessu ári. mynd/twitter-síða horsens
Kjartan Henry Finnbogason vill reyna fyrir sér í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Kjartan leikur með Horsens í 1. deildinni og hefur átt góðu gengi að fagna með liðinu síðan hann kom til þess frá KR haustið 2014. Hann hefur alls gert 19 mörk í 41 deildarleik fyrir Horsens.

„Forráðamenn liðsins vilja halda mér en þeir vita hvar ég stend og hvað ég vil gera,“ sagði Kjartan í samtali við bold.dk.

Horsens er sem stendur í 3. sæti 1. deildarinnar og er í harðri baráttu um að komast upp í úrvalsdeildina þar sem Kjartan vill spila.

„Ég kom hingað til að sanna mig en ég hef alltaf viljað spila í úrvalsdeildinni og forráðamenn Horsens vita að ef liðið fer ekki upp verð ég líklega ekki lengur í herbúðum þess,“ sagði hinn 29 ára gamli Kjartan Henry.

„Ég má ræða við önnur félög í janúar. Ég vil spila í úrvalsdeildinni, það er númer 1, 2 og 3 hjá mér. Auðvitað væri spennandi að spila með Horsens í úrvalsdeildinni en ég get ekki tekið neina áhættu. Ég er tilbúinn að skoða aðra möguleika í stöðunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×