Innlent

Ný íslensk rannsókn: Frekar sakfellt í kynferðisbrotamálum ef þolandi er með áverka

Snærós Sindradóttir skrifar
Svala Ísfeld Ólafsdóttir rannsakaði dómana og einkenni þeirra.
Svala Ísfeld Ólafsdóttir rannsakaði dómana og einkenni þeirra. Fréttablaðið/Valli
Oftar er sakfellt í nauðgunarmálum hjá unglingsstúlkum þar sem þolandi og gerandi þekkjast ekki á verknaðarstundu. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, dósents við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Svala rannsakaði dóma Hæstaréttar frá 1920 til 2015 þar sem þolandi brots var unglingsstúlka, á aldrinum 13 til 17 ára. Dómarnir voru 32 talsins en mikill meirihluti þeirra féll á árunum 1992 til 2015, eða 27 þeirra.

Í átján málum þekktust þolandi og gerandi ekkert. Þau voru kunningjar í þremur og þekktust í tólf málum. Þetta rímar ekki við tölur um nauðganir hjá Stígamótum, samtökum sem hjálpa þolendum í kjölfar kynferðisbrots.

Í tölum Stígamóta var gerandi ókunnugur í fjórðungi mála árið 2014. Hann var vinur eða kunningi í 36 prósentum mála, maki í 24 prósentum mála og frændi eða frænka í tæplega þremur prósentum mála.

Algengara að þolandi og gerandi þekkist ekki

Svala segir að skoðun dómanna leiði í ljós að algengara sé að þolandi og gerandi þekkist ekki.

„Málin sem dæmd eru í Hæstarétti einkennast af því að kært er strax, aðilar þekkjast ekki og eins þá styðja áverkar framburð þolandans,“ segir Svala.

Sakfelling er líklegri ef líkamlegir áverkar eru á þolanda þegar leitað er til læknis eftir nauðgun eða í 76 prósentum tilfella. Þolendur leituðu læknis eða fóru á neyðarmóttöku í 90 prósentum tilvika. 64 prósent brotanna voru kærð innan sólarhrings. Aðeins tvisvar var sakfellt þegar eitt til fimm ár voru liðin frá nauðguninni. Allir gerendur neituðu sök nema tveir.

Rannsóknin verður frekar kynnt á málþingi á vegum lagadeildar Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst í dag undir yfirskriftinni: Meðferð nauðgunarmála og viðhorf til brotanna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×