Fótbolti

Lykilmenn semja við Bayern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það verða gleðileg jól hjá Thomas Müller.
Það verða gleðileg jól hjá Thomas Müller. Vísir/Getty
Þýsku meistararnir í Bayern München tilkynntu í dag að félagið hefði gengið frá nýjum samningum við fjóra lykilmenn.

Þeir Jerome Boateng, Javi Martinez og Thomas Müller sömdu allir til ársins 2021 og Xabi Alonso til 2017.

Bild greinir frá því að Boateng muni fá tólf milljónir evra í árslaun og verði samkvæmt því einn hæst launaði varnarmaður heims.

Thomas Müller fær enn betur borgað samkvæmt nýja samningnum eða fimmtán milljónir evra. Hann hafði áður verið orðaður við Manchester United en ekki er útlit fyrir annað en að sóknarmaðurinn öflugi verði áfram hjá Bayern.

Samningur Xabi Alonso átti að renna út í sumar en hann ákvað að vera áfram í tvö ár til viðbótar. Annar Spánverji, Javi Martinez, framlengdi einnig dvöl sína um fjögur ár en gamli samningur hans átti að renna út árið 2017.

Sjá einnig: Fullyrt að Guardiola hætti í sumar

Óvissa er hins vegar um framtíð knattspyrnustjórans Pep Guardiola en hann er sagður ætla að fara frá Bayern þegar samningur hans rennur út í sumar. Guardiola sagði í vikunni að framtíð hans myndi skýrast eftir helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×