Fótbolti

Fullyrt að Guardiola hætti í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Samkvæmt fréttum á Spáni mun Pep Guardiola hætta hjá Bayern München þegar samningur hans við félagið rennur út í sumar.

Marca fullyðrir að Guardiola hafi þegar tekið þá ákvörðun að framlengja ekki dvöl sína í Þýskalandi og að hann hafi tilkynnt forráðamönnum félagsins það í síðustu viku.

Sjá einnig: Guardiola: Framtíðin skýrist í næstu viku

Sjálfur sagði Guardiola í vikunni að framtíð hans myndi skýrast í næstu viku og Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern, hefur sagt að lokahnykkur umræðanna um stöðu Guardiola fari fram eftir leik liðsins við Hannover um helgina.

Vetrarfrí hefst í þýsku deildinni eftir leiki helgarinnar en Bayern er nú á toppi hennar með fimm stiga forystu á næsta lið.

Sjá einnig: Rummenigge: Ræðum samningamál Guardiola í desember

Marca heldur því enn fremur fram að Guardiola telji að hans áherslur eigi ekki lengur samleið með félaginu og að það hafi verið brotalamir í samstarfi hans við einstaka leikmenn í liðinu.

Þýska blaðið Bild virðist svo staðfesta frétt Marca og hefur einnig greint frá því að Guardiola hafi tilkynnt forráðamönnum Bayern um áætlun sína að stíga til hliðar í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×