Erlent

Evrópusambandið hyggst stórefla landamæraeftirlit

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, vill herða landamæraeftirlit.
Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, vill herða landamæraeftirlit. Nordicphotos/AFP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði í gær fram tillögu þess efnis að leggja niður Landamærastofnun Evrópu, oft kölluð FRONTEX, og koma þess í stað á fót á nýrri stofnun, Evrópsku landamæra- og landhelgisgæslunni.

Í tillögunni kemur fram að fastir starfsmenn nýju gæslunnar skuli vera um þúsund talsins en fastir starfsmenn FRONTEX eru nú um 350.

Þá myndu einnig um 1.500 landamæraverðir aukalega vera til taks ef þess gerðist þörf.

Einnig myndi nýja gæslan vera frábrugðin FRONTEX að því leyti að landamæraverðir hennar hefðu rétt á að taka völdin á landamærum Evrópusambandsríkja án þess að þurfa leyfi viðkomandi ríkis hverju sinni.

Gífurlegur fjöldi flóttafólks, einkum frá Sýrlandi, hefur undanfarna mánuði flætt inn fyrir landamæri Evrópusambandsins. Hefur ástandið á ytri landamærum sambandsins valdið töluverðum titringi innan þess.

Þá urðu hryðjuverkaárásirnar á París til þess að ákveðið var að herða landamæraeftirlit innan Schengen-samstarfsins.

Í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar í gær er haft eftir varaforseta framkvæmdastjórnarinnar, Frans Timmermans, að nýja gæslan myndi taka völdin á landamærum í undantekningartilvikum, þegar sambandsríki réðu ekki við stöðuna.

„Þetta verður öryggisnet sem, líkt og öll öryggisnet, við vonum að við kæmum aldrei til með að nota. En það er nauðsynlegt til að endurreisa trúverðugleika landamæraeftirlits okkar,“ segir Timmermans. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×