Fótbolti

Platini: Var siðanefndin sofandi í fjögur ár?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Michel Platini, sem enn er forseti Knattspyrnusambands Evrópu, mun áfrýja niðurstöðu siðanefndar FIFA sem dæmdi hann og Sepp Blatter, fráfarandi forseta FIFA, í átta ára bann á mánudag.

Platini fékk greiðslu frá FIFA árið 2011 fyrir meint störf sem hann mun hafa unnið fyrir Sepp Blatter og FIFA nokkrum árum áður. Engin gögn eru hins vegar til sem styðja þá staðhæfingu og því voru þeir dæmdir fyrir spillingu.

Sjá einnig: Sepp Blatter og Michel Platini dæmdir í átta ára bann

„Hvar var siðanefndin að gera frá 2011, þegar ég fékk borgað, og 2015. Var hún sofandi?“ sagði Platini í stuttu viðtali við AFP-fréttastofuna í Frakklandi.

„Svo vaknar hún skyndilega þegar það á að fara að kjósa forseta FIFA og ég er í framboði. Það er alveg ótrúlegt,“ sagði hann.

Nýr forseti FIFA verður kjörinn í lok febrúar og þarf Platini að fá banninu aflétt til að geta boðið sig fram. Platini og Blatter ætla báðir að fara með mál sitt fyrir Alþjóðaíþróttadómstólinn [CAS] í Sviss og vonast eftir skjótri niðurstöðu.

Sjá einnig: Platini fékk 258 milljónir króna frá FIFA

Það er hins vegar ekki víst að málið sé svo einfalt og að þeir þurfi fyrst að fara með sín mál í gegnum áfrýjunardómstól FIFA áður en þeir geta leitað til CAS. Tíminn sé því einfaldlega of naumur fyrir Platini.

„Ég mun berjast. En hvað sem gerist að þá hefur orðspor mitt verið saurgað og ég sparkaður í tennurnar. Ég hef verið settur í sama poka og Blatter.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×