Skoðun

Þriðjungur grunnlífeyris á Norðurlöndum

Björgvin Guðmundsson skrifar
Grunnlífeyrir almannatrygginga hér er tæpar 40 þúsund krónur á mánuði. Í grannlöndum okkar, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Bretlandi, er hann þrisvar sinnum hærri.

Íslendingar voru í fararbroddi í almannatryggingum fyrst eftir stríð. En síðan hefur Ísland stöðugt dregist aftur úr á þessu sviði og í dag rekur Ísland lestina. Hvað veldur? Ástæðan er skeytingarleysi stjórnmálamanna á sviði almannatrygginga. Framámenn í íslenskum stjórnmálum í dag virðast telja, að lífeyrir megi ekki vera hár í samanburði við lágmarkslaun. En þetta er alger misskilningur. Vissulega má lífeyrir aldraðra vera hærri en lágmarkslaun. Það sýnir einfaldlega, að þjóðfélagið vill gera vel við sína eldri borgara.

Röksemd Bjarna Ben. um að lífeyrir megi ekki vera hár, þar eð þá sé enginn hvati til þess að fara út á vinnumarkaðinn, á ekki við um eldri borgara. Eftirlaun verða hins vegar að vera það há, að þau dugi til framfærslu hjá þeim, sem einungis hafa tekjur almannatrygginga. En svo er ekki í dag. Þar vantar mikið upp á. Sú hungurlús, sem ríkisstjórnin skammtar lífeyrisþegum frá 1. janúar breytir hér engu. Lífeyrir aldraðra á að sjálfsögðu að vera svipaður hér og hann er í grannlöndum okkar.

Jafnhliða stórhækkun grunnlífeyris aldraðra þarf að afnema skerðingu lífeyris hjá TR vegna greiðslna úr lífeyrissjóði. Bjarni fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins lofaði því fyrir síðustu alþingiskosningar að afnema þessa skerðingu. Hann hefur ekki efnt þetta loforð. Það er alvarlegt mál. Stjórnmálamenn geta ekki gefið kjósendum slík loforð án þess að standa við þau. Ef Bjarni efnir ekki þetta loforð strax á hann að segja af sér. Svo einfalt er það. Tekjutengingarnar fara mjög illa með aldraða og öryrkja. Eldri borgari, sem hefur 100 þúsund krónur á mánuði í lífeyri frá lífeyrissjóði, missir sem svarar helmingi þessarar upphæðar frá almannatryggingum. Hvaða réttlæti er í því? Hvers vegna var þessi eftirlaunamaður að greiða í lífeyrissjóð, ef hann nýtur þess ekki, þegar hann er hættur að vinna? Það verður að afnema þessa skerðingu og það verður að afnema hana strax.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×