Innlent

Aldrei fleiri þyrluútköll hjá Landhelgisgæslunni

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
20-25 prósent útkalla Landhelgisgæslunnar eru vegna neyðar á sjó. Afgangur inni í landi en hlutföllin hafa breyst gríðarlega síðasta áratuginn.
20-25 prósent útkalla Landhelgisgæslunnar eru vegna neyðar á sjó. Afgangur inni í landi en hlutföllin hafa breyst gríðarlega síðasta áratuginn. vísir/ernir
Á þessu ári hafa þyrlur Landhelgisgæslunnar farið í 214 útköll. Þar með hefur met frá árinu 2013 verið slegið þegar þyrlurnar fóru í 195 útköll. Fyrir tíu árum var meðalfjöldi útkalla um það bil 120 á ári og því ljóst að undanfarinn áratug hefur útköllunum fjölgað gríðarlega.

„Aukning á útköllum eru greinilega tengd ferðamennsku. Bæði innlendri og erlendri,“ segir Ásgrímur Lárus Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni.

Icelandic Tourism Research Center gerði rannsókn á útköllum þyrlanna á árunum 2009 til 2013. Þar kemur fram að helmingur útkalla er vegna ferðamanna. Þessi helmingur skiptist síðan jafnt á milli Íslendinga og erlendra ferðamanna.

Ásgrímur Lárus Ásgrímsson
„Upphaflega var þyrludeild Landhelgisgæslunnar sett á stofn til að bjarga sjómönnum og ná í sjúklinga úti á sjó. Svo hefur þetta þróast út í að við förum inn í land enda eru þetta einu þyrlurnar sem eru uppsettar í leit og björgun. Í dag er þetta þannig að 70-75 prósent útkalla eru inni í landi, á fjöllum og erfiðum aðstæðum.

Útköll þyrlanna eru skilgreind sem neyðaraðstoð og því ekki rukkað fyrir útköllin. Erfitt er að reikna út hvað hvert útkall kostar þar sem ákveðinn grunnkostnaður er alltaf til staðar sama hversu mörg útköllin eru. Aftur á móti er hægt að miða við að í verktöku kostar ein flugstund í þyrlu 680 þúsund krónur. Ásgrímur segir flókið að rukka fyrir útköll.

Halldór Halldórsson
„Við viljum að fólk sem lendir í vandræðum hiki ekki við að leita aðstoðar áður en vandræðin verða meiri og þar með björgunar- og leitaraðgerðir erfiðari. Það er ekki gott ef fólk fari að hugsa að það þurfi að borga háa fjárhæð og hiki við að láta vita af sér. Hins vegar mættu einhverjir sérfræðingar skoða möguleikann á að túristar sem koma til landsins séu með einhvers konar tryggingu. En það gæti verið erfitt ferli.“

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vill sjá kerfi á Íslandi sem tryggir að útlagður kostnaður sé dekkaður.

„Við erum með magnað kerfi sem byggir á svakalegri sjálfboðavinnu og ég er hræddur um að misnotkun geti skemmt það. Það á einnig við um kostnað Landhelgisgæslunnar. Ég sé fyrir mér tryggingakerfi þar sem endurgreiðsla myndi eiga sér stað. Það verður að vera því ég sé ekki annað fyrir mér en að þetta muni aukast,“ segir Halldór sem ætlar að taka upp málið á næsta fundi sínum með innanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×