Innlent

Erfitt að eignast andvana barn og vita að þú lést það deyja

Una Sighvatsdóttir skrifar
Foreldrar sem þurfa að binda enda á meðgöngu vegna fósturgalla finna fyrir fordómum og skilningsleysi í samfélaginu.

„Ég þurfti að fara í gegnum mikla sjálfsskoðun og hugsa með höfðinu en ekki hjartanu,“ segir Íris Helga Jónatansdóttir sem batt enda á meðgöngu sonar síns þegar í ljós kom alvarlegt brottfall á litningi fimm. Ljóst var að barnið yrði mikið fatlað og því var ákveðið að ljúka henni.

„Þetta er það erfiðasta sem þú getur gert er að labba inn á stofu, eiga barnið þitt og vita að það er dáið og að þú lést það deyja. Ég mat það þannig að ég treysti mér og fólkinu í kringum mig ekki í þetta og síðan fannst mér ekki spennandi að bjóða barninu mínu upp á svona ótrúlega skert lífsgæði,“ segir Íris. Viðtal við Írisi úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að ofan.

Heilbrigðisstarfsmenn gæta þess að beita verðandi foreldra engum þrýstingi þegar í ljós kemur að fóstur verði alvarlega fatlað. Á hverju ári þarf að binda enda á um tuttugu til þrjátíu meðgöngur vegna fósturgalla en slík ákvörðun er ekki tekin nema að vandlega ígrunduðu máli.

„Þetta er alveg geysilega erfið ákvörðun fyrir flesta og ég hef upplifað með mörgum hvað það erfitt að ganga í gegnum þetta. Fólki finnst erfitt að ákveða að eitthvað líf eigi að enda og erfitt að ákveða að eitthvað líf sé ekki þess virði að lifa því,“ segir Hulda Hjartardóttir fæðingarlæknir.

Í tilvikum sem þessum eru allir mögulegir sérfræðingar kallaðir til til að fræða foreldra um gallann og mögulegar afleiðingar hans. „Við reynum að vera mjög varkár og fullyrða ekki eitthvað sem við getum ekki staðið við. Nánast í öllum tilvikum þar sem um slíkt er að ræða þá hefur grunur okkar verið staðfestur eftir að fóstrið fæðist,“ segir Hulda en viðtalið við hana má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×