„Það komu inn uppsagnir fyrir helgi sem ég hef fengið staðfestar en ég reikna með því að það komi mun fleiri uppsagnir inn á borð spítalans þegar hjúkrunarfræðingar mæta til vinnu eftir helgina,“ segir Sigríður. „Hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykki í íslensku heilbrigðiskerfi og ég hef heyrt í mjög sérhæfðum hjúkrunarfræðingum að þeir einstaklingar muni segja upp í stórum stíl.“
Verkfallsaðgerðir hafa staðið yfir í langan tíma og hefur staðan á sjúkrahúsum landsins versnað dag frá degi. Sigríður segir það hárrétt að verkfalli varð að ljúka en ekki með þessum hætti. Reiðin sé mikil innan stéttarinnar með lagasetningu á verkfall þeirra og langlundargeð hjúkrunarfræðinga sé að þrotum komið.

BHM hefur boðað málsókn vegna lagasetningar þingsins og segir það brot á stjórnarskrá að afnema samningsrétt félagsins.
„Það er áhyggjuefni að ríkisvaldið skuli hvorki skynja né skilja hlutverk sitt sem vinnuveitandi þúsunda háskólamenntaðra sérfræðinga sem sinna nauðsynlegri opinberri þjónustu í þjóðfélaginu,“ segir í tilkynningu BHM.