Lífið

Handboltahetjur hanna tískuboli BOB

Guðrún Ansnes skrifar
BOB er ekki bara lógó, heldur karakter sem þeir félagar hafa búið til og er vægast sagt stórskemmtilegur.  Upplýsingar um BOB fylgja með hverjum bol.
BOB er ekki bara lógó, heldur karakter sem þeir félagar hafa búið til og er vægast sagt stórskemmtilegur. Upplýsingar um BOB fylgja með hverjum bol. Vísir/Valli
Landsliðs- og handboltakapparnir Róbert Gunnarsson og Gunnar Steinn Jónsson venda nú kvæði sínu í kross og hafa hannað stuttermaboli og peysur sem kennd eru við BOB og eru unnin í samstarfi við UNICEF á Íslandi.

„Við mætumst þarna, ég með viðskiptavitið en Róbert sem listamaðurinn,“ segir Gunnar og hlær og segir Baldur Kristjánsson ljósmyndara einnig viðloðinn, en hann sér um myndatökurnar.

Hefur Róbert verið iðinn við kolann, þar sem hann hefur í mörg ár þrykkt á boli. Ákváðu félagarnir að leiða saman hesta sína og úr varð þessi skemmtilega útkoma. „Við vildum gera eitthvað saman, og láta gott af okkur leiða samhliða,“ útskýrir Gunnar og heldur áfram: „Við kaup á hverjum bol rennur andvirði eins teppis til barna í flóttamannabúðum, sem UNICEF sér um að koma á leiðarenda, og þannig fær kaupandinn raunverulegri tengsl við góðgerðarmálefnið en ella,“ segir Gunnar.

Gunnar segir bolina afar vandaða og að þeir vonist til að fólk kaupi flíkurnar vegna þess að þær séu flottar og klæðilegar, en ekki einungis undir formerkjum góðgerðarmála, þó að auðvitað sé það ekki slæmt. „Bolirnir koma í afar veglegum umbúðum og fylgir sagan um BOB með, en við höfum búið til heilan heim í kringum þennan karakter sem endurspeglar lógóið okkar.“

Róbert og Gunnar eru atvinnumenn í handbolta og er Róbert búsettur í Frakklandi en Gunnar í Þýskalandi. „Við höfum verið að vinna þetta mestmegnis í gegnum tölvurnar og svo þegar við keppum saman fyrir hönd landsliðsins, jú, og ef við náum að hittast á Íslandi,“ útskýrir Gunnar þegar hann er spurður út í hvernig allt ferlið hafi farið fram, en boltinn fór að rúlla í desember á síðasta ári.

En hvernig gengur að flétta saman fatahönnun og krefjandi handboltaferil? „Það er nefnilega alltaf nóg að gera í boltanum og því gott að geta hellt sér í eitthvað annað, og aðeins gleymt sér þannig. Ég held að það sé bara jákvætt fyrir okkur,“ bendir Gunnar á og skýtur að: „Og ekki snýst þetta um að verða ríkir, heldur að fá að skapa og láta gott af okkur leiða.“

Gunnar býr eins og áður segir í Þýskalandi ásamt unnustu sinni, Elísabetu Gunnarsdóttur, tískumógúl og bloggara á trendnet.is, og dóttur þeirra. Gunnar segir Elísabetu hafa verið duglega við að elta hann vegna boltans í mörg ár og að nú sé komið að honum. „Hún hefur elt mig um allt, nú eltist ég við það sem hún kann manna best,“ segir Gunnar, og viðurkennir að tískan sé sameiginlegt áhugamál þeirra.

Bolirnir verða til sölu á síðunni bobreykjavik.com og í versluninni Húrra við Hverfisgötu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×