Lífið

Kántríæðið snýr aftur

Jói hefur verið viðloðandi kántrítónlist og línudans í tuttugu ár og veit því sitthvað um stílinn.
Jói hefur verið viðloðandi kántrítónlist og línudans í tuttugu ár og veit því sitthvað um stílinn. fréttablaðið/stefán
„Ég held að nú sé að verða uppsveifla í kántrígeiranum, línudansinum og tónlistinni,“ segir Jóhann Örn Ólafsson, eða Jói dans eins og hann er gjarnan kallaður, sem stendur fyrir kántríkvöldi á Spot í kvöld. „Ég hef verið að kenna línudans í tuttugu ár núna og langaði að fara af stað með svona kvöld, svo vonandi verður þetta fyrsta kántríkvöldið af mörgum.“

„Upp úr síðustu aldamótum var kántríhátíðin á Skagaströnd ein allra stærsta útihátíð sem haldin var um verslunarmannahelgi og svo fór að Skagstrendingar hættu að halda hátíðina því hún var einfaldlega orðin of stór,“ segir Jói. Hann bætir við að nú séu kántrísinnaðir Íslendingar eitthvað að ranka við sér aftur. „Þó hefur kántríið alltaf verið vinsælt við hin ýmsu tilefni, svo sem í þemaveislum og svoleiðis.“

En í kvöld verður dansinn í aukahlutverki. „Við ætlum vissulega að dansa í kvöld en aðaláherslan er lögð á tónlistina, þar sem amerísk kántrítónlist mun ráða ríkjum,“ útskýrir Jói og bætir við: „Fólk sem hefur gaman af kántrítónlist ætti að koma, fá sér bjór og hamborgara og svo geta þeir sem vilja dansa komið út á gólf, engin pressa.“

„Nú er því mál að draga fram hattana, pússa stígvélin, henda sér í skyrtuna og vera með,“ skýtur Jói að.

Herlegheitin byrja klukkan 19.00 í kvöld og fara fram á Spot í Kópavogi, þar sem dansað verður fram eftir kvöldi. Aðgangseyrir er 3.000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×