Erlent

Dregur úr fylgi Sannra Finna

Atli Ísleifsson skrifar
Timo Soini, formaður Sannra Finna, gegnir embætti utanríkisráðherra landsins.
Timo Soini, formaður Sannra Finna, gegnir embætti utanríkisráðherra landsins. Vísir/AFP
Ný skoðanakönnun sýnir að mikið hefur dregið úr fylgi hægriflokksins Sannra Finna í Finnlandi.

Yle greinir frá því að flokkurinn mælist nú fimmti stærsti flokkur landsins, með 10,7 prósent fylgi. Í síðustu könnun mældist flokkurinn með 15 prósent fylgi.

Sannir Finnar mynda ríkisstjórn með Miðflokknum og Þjóðarbandalaginu og gegnir Timo Soini, formaður Sannra Finna, embætti utanríkisráðherra. Ríkisstjórnin hefur þurft að skera mikið niður í ríkisútgjöldum frá því að hún tók við völdum eftir þingkosningarnar í vor.

Sjá einnig: Hver er þessi næsti forsætisráðherra Finna?

Miðflokkur Juha Sipilä forsætisráðherra mælist stærstur með 21,7 prósent fylgi. Jafnaðarflokkurinn mælist með 18,3 prósent fylgi, Þjóðarbandalagið með 18 prósent, Græningjar með 12,7 prósent, Vinstriflokkurinn með 8,3 prósent, Sænski þjóðarflokkurinn með 4,8 prósent og Kristilegir demókratar með 4 prósent fylgi.

Finnar hafa það sem af er ári tekið á móti nærri 20 þúsund hælisleitendum og reiknar innanríkisráðuneyti landsins með að þeir verði alls 50 þúsund fyrir árslok. Móttaka hælisleitenda gengur þvert gegn stefnu Sannra Finna í innflytjendamálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×