Menning

Heimkoman er hlaðin spennu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Það sem mér finnst æðislegt við Pinter er að hann dettur í ákveðna stemningu, eins og maður gerir þegar maður sökkvir sér niður í eitthvað sem maður les eða horfir á,“ segir Ingvar E.
"Það sem mér finnst æðislegt við Pinter er að hann dettur í ákveðna stemningu, eins og maður gerir þegar maður sökkvir sér niður í eitthvað sem maður les eða horfir á,“ segir Ingvar E. Vísir/Pjetur
Pinter er að segja okkur margt í Heimkomunni og margt er líka ósagt. Leikritið er svo hlaðið og höfundurinn dularfullur og býr til margar spurningar sem við getum kannski svarað sjálf, hvert fyrir sig,“ byrjar Ingvar E. Sigurðsson leikari þegar hann er beðinn að lýsa leikritinu Heimkomunni í stórum dráttum.

„Það er erfitt að segja eitthvað eitt um þetta leikrit nema að það er hlaðið spennu. Ég hugsa að það komi fólki á óvart,“ segir Ingvar. „Þó ég hafi þekkt það áður þá varð ég undrandi á hvað það er brútalt og átökin mikil.“

Ingvar er í hlutverki slátrara. Það út af fyrir sig á eflaust að segja manni eitthvað um persónuna.

„Já, Max hefur unnið sem slátrari allt sitt líf. Það starf hefur gengið mann fram af manni innan fjölskyldunnar, faðir hans var slátrari og afi hans var slátrari. En það er líka hægt að heimfæra starfsgreinina upp á hvað sem er og maður fer að spyrja sig – er Pinter kannski að meina eitthvað annað, var Max ekki slátrari heldur hórmangari, eiturlyfjabarón eða í mansali? Var hann að slátra fólki en ekki svínum? 

Hlutverk Max slátrara stórt? Já, það er mjög stórt. Við höfum öll mikið vægi á sviðinu.“

Heimkoman var frumsýnd 1965 og fékk þá verðlaun sem besta leikrit ársins í Bretlandi. Spurður hvort þessi uppfærsla sé að einhverju leyti færð til nútímans svarar Ingvar:

„Nei, það þarf ekkert að breyta verkinu, það steinliggur eins og það er og getur gerst hvenær sem er. Á kannski alveg jafn mikið erindi núna og 1965, jafnvel meira.“

Ingvar hefur kynnst Pinter áður sem höfundi.

„Við vorum tveir eða þrír sem tókum Pinter-verk sem einstaklingsverkefni í leiklistarskólanum. Síðan hef ég leikið í tveimur verkum eftir hann í stóru leikhúsunum, í Svikum í leikstjórn Eddu Heiðrúnar í Borgarleikhúsinu og í Afmælisveislunni í leikstjórn Guðjóns Pedersen í Þjóðleikhúsinu. Þetta er þriðja stóra sýningin.“

Ingvar rifjar upp að Heimkoman hafi verið flutt áður hér á landi. „Það var til dæmis fræg sýning hér í Gamla bíói 86-7 hjá P-leikhópnum sem lék bara verk Pinters. Þá var Hjalti Rögnvaldsson búinn að vera lengi í útlöndum og kom heim sérstaklega til að leika í þessu verki. Við sem vorum í skólanum þá höfðum heyrt svo mikið talað um Hjalta Rögnvalds svo það var kærkomið að fá að horfa á hann, heim kominn sérstaklega til að leika í Heimkomunni. Hann brilleraði í þessari sýningu. Björn Hlynur leikur hans rullu núna en Róbert Arnfinnsson lék slátrarann þá.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.