Minnstu munaði að upp úr slitnaði á samningafundinum varðandi málefni Grikklands í Brussel klukkan sex í morgun. Samkomulag náðist eftir sextán klukkustunda maraþonfund.
Í frétt Financial Times segir að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, og Angelu Merkel Þýskalandskanslara hafi bæði talið að viðræður höfðu siglt í strand eftir fjórtán tíma fundahöld.
Engin leið hafi verið fær til að ná samkomulagi og hvorugt þeirra séð nokkra ástæðu til að halda viðræðum áfram. Útganga Grikklands úr evrusamstarfinu hafi þannig verið illskásti kosturinn í stöðunni.
Í fréttinni segir að þegar þau Tsipras og Merkel hafi staðið upp frá samningaborðinu og reynt að komast út hafi Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, meinað þeim útgöngu. „Afsakið, en það er engin leið að þið yfirgefið þennan sal,“ á Tusk að hafa sagt.
Samkomulag náðist nokkrum tímum síðar.
