Fjármálaráðherrar evruríkjanna funduðu í yfir tíu klukkustundir í gær til að finna lausn á skuldavanda Grikkja. Er fundi þeirra lauk tók við fundur leiðtoga ríkjanna. Lagabreytinga er þörf á gríska þinginu svo af aðstoð verði og verða þær að vera afgreiddar frá þinginu fyrir 15. júlí.
Meðal þess sem lagt var fram á fundinum var fjögurra síðna plagg með stífum skilmálum evruríkjanna fyrir áframhaldandi aðstoð til handa Grikkjum. Er það mál manna að það muni reynast Grikkjum erfitt að uppfylla skilyrðin sem þar eru sett fram fyrir áframhaldandi aðstoð.
Á listanum má finna hluti á borð við að einkavæða raforkuflutningskerfi landsins og gagngerar endurbætur á ellilífeyriskerfinu. Verði af nýju neyðarláni er talið að það nemi allt að 86 milljörðum evra en til að það gangi í gegn heimta lánardrottnar að Grikkir framselji yfirráð yfir fjölda ríkiseigna til þeirra. Verðmæti eignanna nemur um fimmtíu milljörðum evra.
Skuldir Grikkja nema nú um 320 milljörðum evra, eða í kringum 180 prósentum af vergri landsframleiðslu. Aukin aðstoð þýðir að skuldir þjóðarinnar fara yfir 200 prósenta múrinn. Gríska ríkisstjórnin, með Alexis Tsipras forsætisráðherra í broddi fylkingar, féllst í gærkvöldi á drög að úrbótum þó að enn eigi eftir að fínpússa samninginn. Verði ekki gengið að samningnum er sá möguleiki á borðinu að Grikkir yfirgefi evrusamstarfið og taki upp drökmu á nýjan leik í fyrir fram ákveðinn tíma til að ná stjórn á vandanum.
Úr herbúðum Finna hafa þær fregnir borist að þeir hyggist ekki samþykkja nýtt neyðarlán. Ólíklegt er að vægi þeirra sé slíkt að það hafi úrslitáhrif. Pirrings gætir hjá fleiri þjóðum en Finnum. Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, lét þau orð falla við komu til Brussel að það væri tímabært að Evrópa sneri sér aftur að hlutum sem hún yrði að gera. Nefndi hann í því samhengi ástandið í Líbíu, Úkraínu og Íran.
„Ég man ekki eftir svipaðri stöðu á mínum ferli,“ segir Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins. „Þetta snýst í raun allt um ESB. Ef taka á ESB alvarlega á alþjóðavettvangi verður það að sýna að það geti tekið á eigin vandamálum.“ Hann er andvígur því að Grikkir yfirgefi sambandið, jafnvel þó að það sé í stutta stund.
Er fréttir bárust af því að drög að samkomulagi væru í höfn mátti sjá megna óánægju Grikkja á samfélagsmiðlinum Twitter. Margir tístu undir myllumerkinu #TsiprasLeaveEUSummit. Vildu þeir meina að stjórnin væri að fara á svig við vilja þjóðarinnar en 61 prósent kjósenda vildi að Grikkir höfnuðu samningum við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Niðurstaða spekúlanta um framhaldið virðist ávallt vera sú sama. Aðeins tíminn getur leitt í ljós næstu skref.
Tíminn geymir næstu skref
Tengdar fréttir
Fundi aflýst með skömmum fyrirvara
Leiðtogar Evrópusambandsins hugðust ákveða framtíð Grikklands.
Óvíst hvort grískur almenningur þoli tvö ár af óvissu
Gangi Grikkir úr evrusamstarfinu geta myndast aðstæður sem líkjast fremur stríðssvæði en efnhagsvanda að mati grísks efnahags- og fjármálaráðgjafa.
Þungi sögunnar hvílir á Þýskalandi
Dagurinn í dag er talinn sá stærsti í 10 ára valdatíð Angelu Merkel og biðla þýskir miðlar til kanslarans að hún „sýni mikilleika“ og bjargi Evrópu.