Lífið

Mottumars: „Forvarnir skipta öllu máli“

Samúel Karl Ólason skrifar
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda og svo Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka Iðnaðarins.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda og svo Bjarni Már Gylfason, hagfræðingur Samtaka Iðnaðarins. Mynd/Golli
Starfsmenn í Húsi atvinnulífsins skarta nú mottum af öllum stærðum og gerðum og safna fyrir gott málefni. Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda, er einn þeirra en hann hefur fengið miklar undirtektir við skegg sitt á Facebook.

„Ég hafði aldrei búist við svona sterkum viðbrögðum,” segir Pétur. „Villi á Barber á mikið í mottunni – hann sneri mér frá speglinum, rétti mér tímarit, sem ég þori ekki að segja hvað heitir, svo ég hefði nú örugglega eitthvað fyrir stafni, og svo snyrti hann skeggið og hrærði lit í það án þess að ég hefði nokkuð um það að segja. Það er alltaf óhætt að treysta Villa!“

Viðbrögðin við skegginu eru af öllum toga. Það þyrmir yfir suma, flestum er skemmt og svo eru þeir sem eru veikir fyrir mottutöfrunum. Pétri hefur til að mynda verið líkt við ítalskan mottusölumann, en einnig við kvikmyndastjörnur frá gullárum Hollywood á borð við Errol Flynn, Clark Gable og David Niven.

Meira og minna allar atvinnugreinarnar í Húsi atvinnulífsins taka þátt. Samtök Iðnaðarins eru í einu liði og Samtök atvinnulífsins í öðru. Á meðfylgjandi mynd brugðu Pétur og Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins á leik með Golla ljósmyndara.

„Keppnin er auðvitað hvetjandi og gaman hvað fólk hefur verið duglegt að heita á mann, en umfram allt er þetta gott málefni. Ég þekki marga sem hafa glímt við krappamein og sem betur fer hafa flestir haft betur í þeirri viðureign,“ segir Pétur.

„Forvarnir skipta öllu máli þegar þessi sjúkdómur er annarsvegar, að fólk sé upplýst um hættuna og fari reglulega í skoðun. Það á jafnt við um konur og karla, þó að karlar virðist stundum tregari að leita til læknis.”

Pétur er keppandi #1867 og hægt er að heita á hann á vef Mottumars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×