Lífið

Leita að stelpu í hrollvekjumynd

Adda Soffia Ingvarsdóttir skrifar
Þær Nanna, Margrét og Lovísa leita að aðalleikonu í hrollvekjuna sína.
Þær Nanna, Margrét og Lovísa leita að aðalleikonu í hrollvekjuna sína. Vísir/GVA
„Okkur langaði að gera góða hrollvekju, með konu í aðalhlutverki, án þess þó að hún sé bara labbandi um sem eitthvert fórnarlamb,“ segir leikstjórinn og handritshöfundurinn Lovísa Lára Halldórsdóttir, sem ásamt þeim Margréti Buhl og Nönnu Höjgaard Grettisdóttur framleiðir stuttmyndina.

Þær stöllur reka framleiðslufyrirtækið Anthems of Our Youth og hlutu þær styrk í gegnum Skæruliðamyndaverkefni Klapp kvikmyndagerðar til þess að gera stuttmyndina.

„Myndin er um konu sem upplifir draugagang í sinni eigin íbúð og fer meðal annars að fá sendar myndir af sjálfri sér sofandi. Það er samt algjörlega undir áhorfandanum komið hvernig hann túlkar draugaganginn,“ segir Lovísa.

Stelpurnar gerðu saman stuttmyndina Smástirni sem hefur fengið mikla athygli á kvikmyndahátíðum erlendis og var sýnd á Sarasota Film Festival fyrir skemmstu. „Við reynum að segja okkar sögur frá sjónarhorni kvenna og viljum taka þátt í að auka hlut þeirra í kvikmyndabransanum.“

Tökur á hefjast í maí og leita þær nú að leikkonu í aðalhlutverkið. Áhugasamir geta haft samband við casting.anthemsofouryouth@gmail.com. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×