Innlent

Vilja koma Kevi heim

Snærós Sindradóttir skrifar
Fjölskyldan var flutt í lögreglufylgd af landi brott á fimmtudag
Fjölskyldan var flutt í lögreglufylgd af landi brott á fimmtudag
Hópur fólks vinnur nú að því að koma albanskri fjölskyldu, sem flutt var úr landi aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku, aftur heim til Íslands. Fréttablaðið hefur eftir heimildum að fundað verði í dag um fjármögnun og utanumhald verkefnisins með lögmönnum.

Brottflutningur fjölskyldunnar hefur vakið reiði í samfélaginu vegna þess að sonur hjónanna Kastrijot og Xhuliu, hinn þriggja ára gamli Kevi, er með slímseigjusjúkdóm. Sjúkdómurinn er lífshættulegur og veldur sýkingum í líffærum. Barnalæknirinn Kristján Dereksson tjáði sig um sjúkdóminn á föstudag og sagði ólíklegt að Kevi myndi lifa til tíu ára aldurs.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er fjölskyldan komin til Albaníu og líður vel miðað við aðstæður. Þau hafa verið í sambandi við íslenska hópinn og fengið fréttir um þeirra mál þýddar yfir á móðurmálið. 

Katrín Oddsdóttir lögmaður segist ekki sjá neitt því til fyrirstöðu að fjölskyldan sæki um hæli hér að nýju. „Þau eru ekki búin að klára allar kæruleiðir miðað við það sem komið hefur fram í fjölmiðlum.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er einnig sá möguleiki fyrir hendi að sækja um ríkisborgararétt fyrir fjölskylduna í stað þess að sækja um hæli. 

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær að allsherjarnefnd Alþingis ætli að skoða mál fjölskyldunnar og hvort rétt hafi verið staðið að umsókn þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×