Erlent

Tilkall til milljón ferkílómetra

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Pútín hefur gert tilkall til norðurskautsins að forgangsatriði.
Pútín hefur gert tilkall til norðurskautsins að forgangsatriði. nordicphotos/afp
Rússland gerði í gær aftur tilkall til gríðarmikils landflæmis á norðurskautinu. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Um er að ræða um 1,2 milljóna ferkílómetra landsvæði sem talið er að innihaldi gífurlegt magn náttúruauðlinda.

Noregur, Bandaríkin, Danmörk og Kanada hafa einnig lýst yfir áhuga á að gera svipað tilkall til svæðisins og fjöldi orkufyrirtækja er með það á teikniborðinu að hefja tilraunaboranir á svæðinu.

Fyrir um áratug höfnuðu Sameinuðu þjóðirnar upphaflegu tilkalli Rússa þar sem nægjanleg gögn um svæðið lágu ekki fyrir. Síðan þá hefur Pútín Rússlandsforseti sett það í forgang að tryggja yfirráð Rússa á svæðinu þar norður frá og nú telja yfirvöld í Moskvu sig búa yfir nægri þekkingu til að gera tilkallið enn á ný.

Fréttablaðið hefur greint frá því að fimm ríki hafa gert með sér samkomulag um veiði og rannsóknir á norðurskautinu en það þykir vekja athygli að Ísland var ekki á meðal þeirra ríkja. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×