Óvissa er um rekstrahæfi Reykjaneshafnar samkvæmt nýbirtum ársreikningi hafnarinnar.
Félagið sem er í eigu Reykjanesbæjar tapaði 103 milljónum á síðasta ári. Mikill taprekstur hefur verið á höfninni undanfarin ár en skuldir þess nema tæplega 8 milljörðum króna og eigið fé er neikvætt um 4,5 milljarða.
Árið 2016 þarf Reykjaneshöfn að greiða 2,2 milljarða í afborganir af lánum auk vaxta. Því þarf fyrirtækið nauðsynlega að endurfjármagna lán sín samkvæmt því sem kemur fram í ársreikningi ársins 2014.
Rekstrartekjur námu 600 milljónum en rekstrargjöld 182 milljónum árið 2014. Fjármagnsgjöld námu 488 milljónum króna sem átti stærstan þátt í að skýra tapið.
Reykjaneshöfn hefur lagst í miklar fjárfestingar undanfarin ár til þess að undirbúa komu stóriðju við Helguvík. Dráttur hefur þó orðið á að stóriðja hefjist á svæðinu.
Stjórn Reykjaneshafnar vonast þó til að framkvæmdir við nýtt kísilver Thorsil ehf. muni hefst á árinu. Þá er einnig búist við þriðju greiðslu af fjórum frá United Silicon sem hefur hafið byggingaframkvæmdir í Helguvík. Einnig er gert ráð fyrir ríkisframlagi til framkvæmda við höfn í Helguvík á næstu árum.
