Þjónusta afþreyingarfyrirtækisins Netflix er ekki aðgengileg víða um heim. Þó eru fjölmargir sem fara framhjá lokun Netflix með hinum ýmsu krókaleiðum.
Þar á meðal er fjöldi Íslendinga en talið er að allt að 20.000 heimili séu með aðgang að Netflix. Svo gæti þó farið á næstunni að lokað verði á þessa notendur.
Netflix vinnur nú að því, að beiðni kvikmyndaframleiðslufyrirtækja, að koma í veg fyrir að íbúar í löndum þar sem fyrirtækið starfar ekki geti fengið aðgang að þjónustu fyrirtækisins.
Aðgerðir Netflix fram til þessa eru ekki umsvifamiklar en í frétt torrentfreak.com segir að fyrirtækið sé byrjað að prófa ýmsar leiðir til að loka alveg fyrir þjónustuna í löndum eins og á Íslandi, þar sem hún er í raun og veru ekki í boði.
