Fótbolti

Björn Bergmann skoraði í sigri FCK í bikaúrslitaleiknum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Björn Bergmann skoraði fyrir FCK í bikarúrslitum.
Björn Bergmann skoraði fyrir FCK í bikarúrslitum. vísir/getty
Björn Bergmann Sigurðarson og Rúrik Gíslason urðu í dag danskir bikarmeistarar í fótbolta með FC Kaupmannahöfn þegar liðið lagði Eggert Gunnþór Jónsson og félaga hans í Vestsjælland, 3-2, í framlengdum bikarúrslitaleik.

Allir Íslendingarnir voru í byrjunarliðinu í dag og komust Vestsjælland Víkingarnir óvænt yfir eftir 30 mínútna leik með marki Apostolos Vellios, 1-0.

FCK sótti án afláts en náði ekki jafna metin fyrir hálfleik. Það gerði liðið aftur á móti á fyrstu sekúndum seinni hálfleiksins þegar Per Nilson jafnaði metin, 1-1.

Björn Bergmann var áræðinn fyrir framan mark Vestsjælland og kom FCK yfir, 2-1, með glæsilegu marki á 54. mínútu. Hann fékk sendingu frá Daniel Amartey og vippaði snyrtilega yfir markvörðinn.

Eggert Gunnþór fór af velli hjá Vestsjælland á 80. mínútu og fjórum mínútum síðar leysti Færeyingurinn Brandur Olsen íslenska landsliðsmanninn Rúrik Gíslason af hólmi hjá FCK. Hann átti eftir að koma við sögu í leiknum.

Vestsjælland gerði sér lítið fyrir og jafnaði metin þegar átta mínútur voru eftir, 2-2, en mark Dennis Sörensen kom leiknum í framlengingu.

Eina markið í framlengingunni skoraði hinn 19 ára gamli Færeyingur, Brandur Olsen, á 102. mínútu, en hann hefur aldrei byrjað leik fyrir FC Kaupmannahöfn.

Fyrir bikaúrslitaleikinn í dag hafði hann spilað samtals 32 mínútur í tveimur leikjum í deildinni, tíu mínútur í tveimur leikjum í bikarnum og eina mínútu í Evrópudeildinni.

Bikarinn var í raun eini möguleiki FCK á titli þar sem liðið er níu stigum á eftir toppliði Midtjylland í deildinni. Munurinn er þó mikill á FCK og Vestsjælland í deildinni, en Eggert Gunnþór og félagar eru í næstneðsta sæti, 30 stigum á eftir FCK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×