Menning

Bryndís, Ófeigur og Snorri hljóta bókmenntaverðlaunin

Jakob Bjarnar skrifar
Samkvæmt nefnd bókaútgefenda þóttu þessi þrjú bjóða uppá bestu bækur ársins: Ófeigur, Bryndís og Snorri.
Samkvæmt nefnd bókaútgefenda þóttu þessi þrjú bjóða uppá bestu bækur ársins: Ófeigur, Bryndís og Snorri.
Nú, í þessum orðum töluðum er verið að veita þeim Bryndísi Björgvinsdóttur, Ófeigi Sigurðssyni og Snorra Baldurssyni Íslensku bókmenntaverðlaunin að Bessastöðum; Bryndís fyrir Hafnfirðingabrandarann, Ófeigur fyrir Öræfi og Snorri fyrir Lífríki Íslands. Hver höfundur hlýtur milljón krónur í verðlaunafé.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur boðið rithöfundum, útgefendum og öðru bókafólki til stofu að Bessastöðum. Þrenn verðlaun eru veitt, í flokki fagurbókmennta, barna- og unglingabóka og svo fræðibóka. Víst er að nú er að nú er fagnað vel og mikið Vestur í bæ, hjá þeim feðgum Jóhanni Páli Valdimarssyni forstjóra og Agli Erni framkvæmdastjóra í höfuðstöðvum Forlagsins, en allar bækurnar sem hlutu verðlaun þetta árið eru undir regnhlíf þessa stærsta forlags landsins.

Lokadómnefnd var skipuð þeim Helgu Ferdinandsdóttur, Hildigunni Sverrisdóttur, Tyrfingi Tyrfingssyni og Árna Sigurjónssyni, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar. Vísir fjallaði um verðlaunin þegar fyrir lá hverjir voru tilnefndir.

Forlagsfeðgar mega vel við una, en Jóhann Páll hefur sagt frá því að draumur hans væri sá að Ófeigur næði í gegn; og sá draumur hefur heldur betur ræst.
Ófeigur maður ársins

Með fullri virðingu fyrir hinum flokkunum hefur spennan oft verið mest í flokki fagurbókmennta þar sem tilnefnd eru þau: Guðbergur Bergsson, Gyrðir Elíasson, Kristín Eiríksdóttir, Ófeigur Sigurðsson og Þórdís Gísladóttir. Og víst er að Ófeigur má heldur betur vel við una að vera valin úr þessum hópi, Guðbergur og Gyrðir hafa lengi verið taldir meðal fremstu rithöfunda þjóðarinnar og buðu báðir upp á glæsileg verk þetta árið.

Ekki fer alltaf saman fagurfræðilegt gildi eða mat og svo velgengni á markaði, en Ófeigur fagnar þessu báðu. Hann var þriðji efstur efstur á sölulista sem Félag bókaútgefenda gaf út á eftir glæpasagnahöfundunum vinsælu, þeim Arnaldi Indriðasyni og Yrsu Sigurðardóttur. Þessi velgengni kom nokkuð á óvart því ekki er gefið, nema síður sé, að góð verk í þessum flokki bókmennta nái almennum vinsældum. Hér má finna viðtal sem tekið var við Ófeig fyrir skömmu, en þar ræðir hann meðal annars Öræfi.

Bryndís sér mikinn vaxtarbrodd í flokki barna- og unglingabóka.
Barna- og unglingabókahöfundar sækja í sig veðrið

Eftirfarandi höfundar og bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki barna- og unglingabóka: Ármann Jakobsson: Síðasti galdrameistarinn, Bryndís Björgvinsdóttir: Hafnfirðingabrandarinn, Eva Þengilsdóttir: Nála – riddarasaga, Þórarinn Eldjárn og Sigrún Eldjárn: Fuglaþrugl og naflakrafl og svo Þórarinn Leifsson: Maðurinn sem hataði börn.

Bryndís Loftsdóttir segir að mikill uppgangur sé í útgáfu bóka sem falla í þennan flokk. „Fyrir um 15 árum hófst glæpavorið góða í íslenskum bókmenntum og hafa íslenskir glæpasagnahöfundar gert garðinn frægan, víða um heim með Arnald Indriðason í broddi fylkingar.  Nú er spurning hvort hér sé að hefjast grösug tíð í útgáfu barna- og ungmennabóka.  Íslensku bókmenntaverðlaunin verða nú veitt í annað sinn í þessum flokki og það fór ekki fram hjá neinum að úthlutunarnefnd rithöfundalauna leit í fyrsta skipti til höfunda sem skrifa fyrir þennan hóp við síðustu úthlutun. Það væri óskadraumur margra ef við ættum líka að minnsta kosti einn alþjóðlegan Arnald sem skrifaði fyrir yngri kynslóðina,“ segir Bryndís.

Og nú binda útgefendur sem sagt, sé litið til verðlaunanna, til þess að Bryndís Björgvinsdóttir eigi erindi út fyrir landsteina, í það minnsta.

Glæsilegar fræðibækur

Þau sem hlutu verðlaun í þessum mikilvæga flokki, fræða- og almenns efnis, eru Björg Guðrún Gísladóttir: Hljóðin í nóttinni, Eggert Þór Bernharðsson: Sveitin í sálinni – Búskapur og ræktun í Reykjavík 1930-1970, Pétur H. Ármannsson ritstýrði: Gunnlaugur Halldórsson – Arkitekt Hið íslenska bókmenntafélag og svo sjálfur verðlaunahafinn Snorri Baldursson: Lífríki Íslands – Vistkerfi lands og sjávar.

Höfundar í þessum flokki syrgja sérstaklega sagnfræðinginn vel metna, Eggert Þór, sem féll frá fyrir skömmu fyrir aldur fram. En það þarf ekki að koma á óvart að bók Snorra hafi orðið fyrir valinu. Lífríki Íslands: vistkerfi lands og sjávar er einstök bók um íslenska náttúru, yfirgripsmikið og ríkulega myndskreytt rit sem fræðir lesendur um sögu og þróun lífríkisins. Meðal annars er fjallað um mismunandi búsvæði lífvera hér á landi: þurrlendið, votlendi, ferskvatn, strendur og sjó; einkenni þessara svæðanna, breytingar í tímans rás, áhrif búsetu og nýtingar og framtíðarhorfur í ljósi hnattrænnar þróunar. Snorri vann lengi að þessu tímamótaverki en þar dregur hann saman geysilega fjölbreyttan fróðleik um vistkerfi Íslands, bæði til lands og sjávar.

Egill Helgason telur gullöld nú ríkja í bókmenntunum; íslenskir höfundar skrifa fyrir allan heiminn.
Höfundar skrifa fyrir allan heiminn

Hver höfundur hlýtur, auk sæmdarinnar eina milljón króna í verðlaun. En, samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra bókaútgefenda líta menn ekki síst svo á að verðlaunin muni reynast gott veganesti til réttindasölu erlendis.

En hvernig var þetta ár í samanburði við önnur? Fáir vita það betur en Egill Helgason umsjónarmaður bókmenntaþáttarins Kiljunnar á ríkisútvarpinu en Vísir ræddi við Egil fyrr í dag, áður en búið var að gefa upp hverjir hlutu verðlaunin.

„Mér finnst þetta mjög sterkt bókaár og ég myndi ekki vilja vera í þeirri stöðu að gera upp á milli þeirra bóka sem eru tilnefndar. Þarna eru ferlega fín verk og þetta var gott ár; mikil fjölbreytni og margt gott sem vonandi lifir eitthvað.“

Auk sæmdar og verðlauna líta menn til þess að verðlaunin geti opnað höfundum dyr inn á erlendan markað. Hvernig horfir það við þér?

„Ég held að það hafi verið gullöld í bókmenntum síðustu árin vegna þess að það eru svo margir að fá samninga í útlöndum. Menn eru að skrifa fyrir stærri hópa en áður. Gaman að vera höfundur og vita að maður er ekki bara að skrifa fyrir Ísland, heldur kannski Frakkland og Þýskaland líka.“


Tengdar fréttir

Bóksalaverðlaunin 2014 veitt í gær

Tilkynnt var í sjónvarpsþættinum Kiljunni í gærkvöldi hvaða bækur bóksalar landsins hafa valið sem bestu bækur ársins. Bóksalaverðlaunin eru veitt í níu flokkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×