Lífið

María sjöundi verst klæddi keppandi Eurovision í ár

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
María klæddist bleikum tjullkjól með pallíettum og var með gylltar tær.
María klæddist bleikum tjullkjól með pallíettum og var með gylltar tær. Vísir/EPA
Hin árlegu Barbara Dex verðlaun féllu þetta árið í skaut hinnar hollensku Trijntje Oosterhuis. Verðlaunin mætti kalla skammarverðlaun þar sem þau falla í hlut þess sem þykir hafa verið verst klæddi keppandinn í söngvakeppninni. 

María Ólafsdóttir, sem fór eins og kunnugt er út fyrir hönd okkar Íslendinga, lenti í sjöunda sæti í keppninni. Þetta kemur fram á Eurovision.tv.

Vefsíðan House of Eurovision stendur fyrir kosningu til þess að ákvarða hver telst sá verst klæddi og hollenski keppandinn vann með 1324 atkvæðum af 4163. Hún var með mun fleiri atkvæði en flytjandinn í öðru sæti en það var hún Bojana Stamenov frá Serbíu, hún hlaut 605 atkvæði og Electro Velvet frá Bretlandi hlutu 397 atkvæði. María hlaut því ekki mörg atkvæði en þó nóg til þess að enda inn á topp tíu lista vefsíðunnar. María fékk í heildina 148 atkvæði.

Verðlaunin nefnd eftir eftirminnilegum Belga

María var berfætt í antíkbleikum kjól með pallíettum og tjulli sem Sunna Dögg Ásgeirsdóttir hannaði fyrir keppnina. Sunna er systir bræðranna Ásgeirs og Pálma í StopWaitGo sem sömdu Unbroken, lag Íslands í keppninni í ár.

Barböru Dex verðlaunin hafa verið veitt síðan árið 1997 og eru nefnd í höfuðið á Barbara Dex sem varð í síðasta sæti í keppninni árið 1993. Hún klæddist eigin hönnun og hefur þótt eftirminnileg fyrir einstaklega ljótan kjól.



Hér að neðan má sjá tíu verst klæddu atriðin í ár að mati kjósenda House of Eurovision:

1. Holland - 1324 atkvæði

2. Serbía - 605 atkvæði

3. Bretland - 397 atkvæði

4. Albanía - 263 atkvæði

5. Moldavía - 237 atkvæði

6. Georgía - 195 atkvæði

7. Ísland - 148 atkvæði

8. Lettland - 135 atkvæði

9. Finnland - 125 atkvæði

10. Armenía - 97 atkvæði


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×