Menning

Þá er bara betra að æla en að væla

Magnús Guðmundsson skrifar
Hallgrímur Helgason og tíkin Lukka á góðri stundu.
Hallgrímur Helgason og tíkin Lukka á góðri stundu. Visir/Vilhelm
Sjóveikur í München eftir Hallgrím Helgason er á meðal tilnefndra fagurbókmennta til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár. Bókin hefur hlotið ákaflega góðar viðtökur gagnrýnenda og má geta þess að nú nýverið birtist einkar lofsverður dómur í Münchenar-stórblaðinu Süddeutsche Zeitung en Hallgrímur er nýkominn úr þriggja vikna upplestrarferð um Þýskaland.

Hallgrímur segist vissulega hafa fengið mikil viðbrögð og góðar viðtökur á liðnum vikum en að sjálfsævisögulega nálgunin hafi aldrei staðið til. „Ég satt best að segja ætlaði aldrei að gera þetta. Taldi að ég væri ekki höfundur sem væri að vinna úr eigin reynslu enda hef ég aldrei gert það áður. En svo fór ég til München árið 2011 þrjátíu árum eftir að ég var þarna á þeim tíma þegar bókin gerist og þá var svo sláandi hvað mikið hafði gerst í millitíðinni. Ég sá allt í einu hvað mér leið illa þarna og þá kom hugmyndin að þessari sögu bara á hótelherberginu um kvöldið. Þessi hugmynd með þessum svörtu ælum algjörlega heltók mig og við það varð ekki aftur snúið.“

Þrátt fyrir velgengni bókarinnar sér Hallgrímur ekki fyrir sér að halda áfram að skrifa á þessu sjálfsævisögulega formi. „Nei, þetta var bara svona one shot only. Ég leyfði mér að nota mikið úr barnæskunni í þessari bók því ég vissi að ég mundi aldrei gera þetta aftur.“ En það virðist þó vera talsverð bylgja á meðal íslenskra rithöfunda í þá átt að skrifa á þessu formi. „Já, ég hafði nú frekar áhyggjur af þessu þar sem þetta hefur verið ákveðið trend síðustu ár. Það getur verið að maður hafi smitast af þeirri stemningu en samt var þetta bara persónuleg upplifun og reynsla sem kallaði á mig. Kannski er fólk bara að horfa meira inn á við en verið hefur og eitthvert svona uppgjörsskeið í gangi í samfélaginu.“

Sjálfsævisöguformið er nýtt fyrir Hallgrím sem rithöfund en það er honum þó auðvitað ekki ókunnugt. „Alveg frá því að ég las Ofvitann á sínum tíma þá hef ég nú verið hrifinn af þessu formi og við ritun þessarar bókar var Sultur eftir Hamsun soldið í bakheilanum. Þetta er nú frekar klassísk nálgun en ég var líka aðeins að reyna að gera meiri skáldsögu úr þessu með því að hafa eitthvert svona smá plott. Þá þurfti ég svona aðeins að hnika til ýmsum hlutum en að mestu er þetta nú eins og þetta var. Hjá mér er þetta eiginlega meiri svona sjálfsælusaga,“ segir Hallgrímur enda aldrei langt í húmorinn. „En þessar ælur sem koma mikið við sögu í bókinni túlkuðu mína líðan. Með þeim náði ég að finna leið til þess að túlka þessa líðan sem var reyndar meira og minna alltaf vanlíðan. Það hefur alltaf verið erfitt að hlusta á mikið væl í skáldsögum og þá er bara betra að æla en að væla.

Þetta er leið til þess að sýna þetta í grafísku formi og þá öðlast þetta eitthvert annað líf. Ég geri ráð fyrir því að það hafi verið myndlistarmaðurinn í mér sem framkallaði allar þessar ælur vegna þess að þetta er eiginlega eins og lítill skúlptúr. En þetta er líka bók um myndlistarnema og soldið mikið til bók um myndlist því mér fannst það spennandi að skrifa um myndlistarpælingar sem ég var í og reyna að matreiða þær. Þess vegna fannst mér það passa vel að vera með hálfgert myndlistarverk í vasanum út alla bókina.

Titill bókarinnar er í raun táknrænn fyrir það ástand að vera ungur og með eitthvað inni í sér sem leitar út en maður veit ekki hvað er og það er engin leið að útskýra það fyrir öðru fólki því það er enginn sjór í München.“­ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.