Viðskipti innlent

Reykjanesbær losni við skuldir hafnarinnar

Ingvar Haraldsson skrifar
Reykjanesbær hefur lagt til að rekstur Reykjaneshafnar verði skilinn frá rekstri bæjarins.
Reykjanesbær hefur lagt til að rekstur Reykjaneshafnar verði skilinn frá rekstri bæjarins. vísir/gva
Í viðræðum við kröfuhafa hefur Reykjanesbær lagt til að rekstur Reykjaneshafnar verði skilinn frá rekstri bæjarins. Með því falli ábyrgð bæjarins á skuldum hafnarinnar niður. Takist Reykjaneshöfn ekki að komast í sjálfbæran rekstur í framhaldinu komi til álita að kröfum verði breytt í hlutafé í Reykjaneshöfn.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir þetta eina af þeim tillögum sem lagðar hafi verið fram.

Lítið hefur gengið í viðræðum við kröfuhafa. „Það þokast ekki neitt,“ segir Kjartan. Ljóst sé að ekki takist að ljúka viðræðum fyrir 15. desember líkt og stefnt hafi verið að. Í vikunni fékk Reykjaneshöfn greiðslufrest, sem var við það að renna út, framlengdan til 15. janúar næstkomandi. Kjartan telur kröfuhafa sýna sjónarmiðum Reykjanesbæjar lítinn skilning. „Það er talsvert bil á milli okkar í viðræðunum.“

Alls nema skuldir bæjarins um 42 milljörðum króna. Meðal stærstu kröfuhafa eru slitabú Glitnis, Íslandsbanki, Landsbankinn, lífeyrisjóðurinir Gildi, Festa og Lífeyirssjóðirnir Bankastræti 7. Takist ekki að semja við kröfuhafnana um niðurfellingu skulda stefnir í greiðslufall Reykjanesbæjar á næsta ári. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×