Viðskipti innlent

Sérfræðingar blása á spár um bólu og annað hrun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fólki varð heitt í hamsi eftir að bankarnir hrundu haustið 2008.
Fólki varð heitt í hamsi eftir að bankarnir hrundu haustið 2008. Vísir/Vilhelm Gunnarsson
Um helgina var ný Bang & Olufsen verslun opnuð en slík verslun hefur ekki verið á landinu frá árinu 2011. Fyrirtækið sem rak verslunina varð gjaldþrota en sala á vörum frá þessu danska vörumerki minnkaði mikið eftir hrun. Vörurnar höfðu verið ein af táknmyndum áranna fyrir hrun og eru nú fáanlegar á Íslandi á ný.

Ásókn erlendra fyrirtækja á íslenskan markað hefur aukist að undanförnu en Dunkin' Donuts opnaði fyrir skömmu eins og frægt er orðið. Það sem af er ári hefur lögreglan gert meira magn kókaíns upptækt en tvo sl. ár samanlagt. Ef þetta er lagt saman við talsverða fjölgun byggingarkrana að undanförnu, mikla ávöxtun á hlutabréfamarkaði og hækkandi verð fasteigna mætti ætla að allt sé að stefna í sömu átt og fyrir hrun.

Vísir leitaði álits sérfræðinga um hvort að að sú væri raunin.

Guðjón Emilsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands.
Eðlismunur á hækkandi fasteignaverði

Fasteignaverð hefur hækkað talsvert undanfarin tvö-þrjú ár og er staðan í dag þannig að fasteignaverð að raunvirði er nú svipað og það var um áramótin 2004 og 2005 en 5 prósentum lægra en það var í árslok 2007. Vegna hækkandi fasteignaverðs á t.d. ungt fólk erfitt með að fjárfesta í íbúðarhúsnæði og ekkert lát virðist vera á hækkun fasteignaverðs. Hagfræðideild Landsbankans spáir því til að mynda að fasteignaverð muni hækka um 24% næstu þrjú árin.

Guðjón Emilsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands segir þó að undirliggjandi ástæður fyrir hækkandi fasteignaverði séu eðlilegar. Hækkun fasteignaverðs nú og sú sem átti sér stað fyrir hrun sé ekki af sama toga.

„Það er eðlismunur á fasteignahækkunum núna og fyrir hrun. Þá voru rosalegir lánamöguleikar sem ýttu undir öfgakennda eftirspurn. Í dag er erfiðara að fá lán og strangari kröfur um greiðslumat,“ segir Guðjón Emilsson.

„Ein af ástæðunum fyrir því að fasteignaverð er að hækka er sú að það vantar íbúðir. Með auknum ferðamannastraumi, fólksfjöldaaukningu og jafnvel eldri hópum sem eru að minnka við sig vantar hreinlega íbúðir.“

Krönum hefur fjölgað talsvert að undanförnu.Vísir/Pjetur Sigurðsson
Aukin bygging íbúða slái á bólu

Fjöldi krana hefur hingað til þótt gefa ákveðnar upplýsingar um efnahagsástand lands og hefur oft verið talað um kranavísitölu í þessu sambandi. Frægur er spádómur hagfræðingsins Rober Aliber er hann kom til landsins í maí 2008 og spáði hruni bankakerfisins þegar hann sá hversu margir kranar voru í notkun. Í dag er 161 krani skráður hjá Vinnueftirlitinu en árið 2010 voru aðeins 24 í notkun. Árið 2007 voru 320 kranar í notkun.

Guðjón segir að þessi fjölgun eigi sér eðlilegar ástæður enda hafi verið talsverð innistæða fyrir byggingaframkvæmdum.

„Það þarf um 1500 íbúðir á ári til að halda í við íbúaþróun,“ segir Guðjón. Íbúðabygging hafi nánast frosið á árunum eftir hrun. „Í dag er verið að byggja um 3000 íbúðir og með því er verið að slá á þörfina sem myndast hefur. Þetta hljómar öfgakennt en þörfin er orðin svo mikil. Til að mynda er mikil vöntun á litlum íbúðum.“

Aukinn kraftur í íbúðarbygginu sé í raun til þess fallinn til að leiða til lækkunar á fasteignaverði.

„Þessar íbúðabyggingar eru ekki að búa til bólu, í raun er frekar verið að slá á hana. Auðvitað er hægt að fara í öfgar í þessu en eins og staðan er í dag er hún ekki mikið áhyggjuefni. Við erum langt frá því að vera á sama stigi og 2007.“

Miklar biðraðir hafa skapast fyrir utan Dunkin Donuts frá opnun.vísir/pjetur
Aukin ásókn erlendra keðja.

„Við teljum að það sé markaður fyrir Bang & Olufsen á Íslandi í dag“ segir Einar Þór Magnússon framkvæmdastjóri Ormsson en vörurnar frá þessu danska fyrirtæki eru fáanlegar á ný á Íslandi eftir að Ormsson opnaði Bang & Olufsen búð um helgina. Fyrir hrun voru Íslendingar sólgnir í þessi stílhreinu dönsku raftæki og keyptu þau í bílförmum. Á einum tímapunkti var Ísland í 2. sæti yfir þau lönd þar sem Bang & Olufsen vörur seldust best.

Opnun bandaríska kleinuhringjaverslunarinnar Dunkin' Donuts hér á landi í síðustu viku vakti einnig mikla athygli auk þess sem að alþjóðlega keðjan Joe and the Juice hefur opnað fjölmarga staði undanfarin misseri. Það er því ljóst að erlend stórfyrirtæki renna hýru auga til Íslands.

Að sögn Harðar Garðarssonar, hagfræðings hjá Seðlabanka Íslands, má segja að fyrir því séu tvær ástæður. Aukin innlend eftirspurn og aukinn straumur ferðamanna til landsins.

„Innlenda eftirspurnin hefur verið að taka við sér auk hins gífurlega ferðamannastraums. Það er fjöldi fólks að versla hérna.“

Varðandi raftæki líkt og þau sem Bang & Olufsen selur telur Hörður líklegt að afnám vörugjalda um sl. áramót hafi hjálpað til. 

„Maður sér það að verslun með raftæki hangir saman við tollabreytingar. Það hefur verið talsverður vöxtur í sölu raftækja. Það hefur verið eitthvað svigrúm og möguleiki á landvinningum fyrir þessi fyrirtæki.“

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og dósent við Háskóla Íslands.Vísir/Gunnar V. Andrésson
Hlutabréfamarkaður tekur við sér

Eðlilega eru Íslendingar varfærnir þegar kemur að hlutabréfum eftir að hvert annað stórfyrirtækið hríðféll í verði eða varð gjaldþrota þegar allt hrundi hér árið 2008. Hlutabréfamarkaðurinn hefur þó heldur betur tekið við sér að undanförnu og hafa sum félög sem skráð eru í Kauphöllina hækkað mikið.

Undanfarna þrjá mánuði hafa hlutabréf í Nýherja t.d. hækkað um rúm 40%. Góð ávöxtun hefur verið á helstu hlutabréfasjóðum sjóðstýringarfélaga og því kannski eðlilegt að landsmenn hafi áhyggjur af miklum hækkunum á hlutabréfamarkaði.

Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og dósent við Háskóla Íslands, segir þó að margt sé ólíkt með félögum í kauphöllinni núna og fyrir hrun.

„Þetta eru félög sem meira og minna eru ekki vaxtafélög og þetta eru félög sem eru ekki að safna skuldum og eru með gott sjóðstreymi. Þetta eru ekki félög eins og fyrir hrun þar sem allt var að fara að gerast bráðlega,“ segir Ásgeir.

„Fyrirtækjunum hefur verið að ganga vel og eru flest byggð á innlendum rextri sem gengur vel. Ég myndi ekki segja að það væri nein bólumyndun byrjuð ennþá.“

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræðiVísir/Pjetur Sigurðsson
Töluvert meira magn kókaíns í umferð.

Magn kókaíns í umferð á Íslandi hefur aukist en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haldlagt meira af kókaíni það sem af er ári en samanlagt árin 2013 og 2014. Fræg eru ummæli David Nutt, fyrverandi ráðgjafa bresku ríkisstjórnarinnar í vímuefnamálum, þegar hann sagði að orsakir bankahrunsins hefði verið ofneysla á kókaíni. Þeir hafi verið fullir sjálfsöryggis og tekið of mikla áhættu.

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir að aukið magn kókaíns í umferð geti bent til þess að meiri umsvif séu í efnahagskerfinu.

„Ég held að það megi alveg líta á þetta þannig að þetta sé merki um meira fé í umferð. Þetta eru dýr efni sem duttu mikið niður eftir hrun þar sem eftirspurnin hrundi, þetta var orðið of dýrt. Það var ekki markaður fyrir þetta,“ segir Helgi.

„Þetta er inn í hópum samfélagsins sem hafa peninga. Þetta eru dýr efni sem ekki allir hafa efni á.“


Tengdar fréttir

Meira af kókaíni í ár en tvö síðustu ár

Kókaínfíklum hefur ekki fjölgað í meðferð hjá SÁÁ þrátt fyrir aukningu í haldlagningu fíkniefnisins. Neysla á kókaíni dróst saman eftir efnahagshrunið 2008. Yfirlæknir segir að aukin haldlagnin geti þýtt fleiri fíkla í meðferð innan tíðar.

Fjarstæða að hér sé bólumyndun

Kranavísitalan svokallaða sýnir litla fjölgun byggingakrana á milli ára. Fjöldi byggingakrana á höfuðborgarsvæðinu er helmingur þess sem hann var árið 2007. Enn hefur eftirspurn eftir litlu og meðalstóru húsnæði ekki verið svarað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×