Erlent

Abbot bannar stjórnarþingmönnum að styðja hjónaband samkynhneigðra

Heimir Már Pétursson skrifar
Tony Abbot forsætisráðherra Ástralíu kom í gær í veg fyrir að hópur þingmanna úr röðum stjórnarflokkanna greiddi atkvæði með framlagingu frumvarps Verkamannaflokksins sem fól í sér lögleiðingu á hjónabandi samkynhneigðra.

Ríkisstjórnin er sett saman af  Frjálslyndaflokki Abbots og Þjóðarflokknum sem er minnihlutaflokkur í ríkisstjórn. Hópur þingmanna Frjálslyndaflokksins hafði boðað að hann myndis styðja frumvarp Verkamannaflokksins um lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra en á sex klukkustunda fundi í þingflokki Frjálslyndaflokksins í gær bannaði Abbot þingmönnum sínum að greiða atkvæði með því að frumvarpið yrði lagt fram.

Mikill flokksagi ríkir í áströslum stjórnmálum og geta þingmenns sem fara gegn forystu flokks á hverjum tíma búist við að verða reknir úr flokknum.

Abbot forsætisráðherra er strangtrúaður kaþolikki og hefur barist gegn viðurkenningu á hjónabandi samkynhneigðra þótt nýjustu kannanir sýni að um 72 prósent landsmanna styðji lögleiðingu þess. Eftir maraþonfundinn í gær sagði Abbot að þjóðin eða þingið gætu greitt atkvæði um málið eftir næstu kosningar.

Verkamannaflokkurinn hefur heitið því að frumvarp um lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra verði lagt fram á fyrstu 100 dögunum eftir kosningar komist flokkurinn til valda.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×