Erlent

Árásarmaður liggur á sjúkrahúsi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Per Ågren, lögreglustjóri í Västerås upplýsir um þróun mála á blaðamannafundi í gær.
Per Ågren, lögreglustjóri í Västerås upplýsir um þróun mála á blaðamannafundi í gær. nordicphotos/afp
Lögregla í Svíþjóð staðfesti í gær að karlmennirnir tveir sem réðust á viðskiptavini IKEA í Västerås með hnífum í fyrradag hafi þekkst og verið erítreskir, en þeir dvöldu á sömu móttöku fyrir hælisleitendur.

Lögregla gerði húsleit í hælisleitendamóttökunni einungis tveimur klukkustundum eftir árásina.

Mennirnir eru fæddir árið 1979 og 1992 og voru báðir handteknir í kjölfar árásarinnar. Þá liggur sá eldri inni á sjúkrahúsi eftir hnífsstungu sem talið er að sá yngri hafi veitt honum. Yngri maðurinn var handtekinn á strætisvagnastöð fyrir utan verslunina.

Tvö féllu í árásinni og voru þau mæðgin. Móðirin var á sextugsaldri en sonurinn á þrítugsaldri.

„Við munum reyna að auka öryggisgæslu í móttöku hælisleitendanna,“ segir Eva Moren, talsmaður lögreglunnar í Västerås. „Það er ekki hægt að útskýra þessa árás. Þetta var algjört brjálæði,“ bætir hún við.

Yngri maðurinn sem handtekinn var hefur neitað sök eftir að lögregla yfirheyrði hann. Ekki hefur enn gefist tækifæri til að yfirheyra þann eldri en það verður gert á næstu dögum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×