Erlent

Olíuflutningaskip sigldi á farþegaferju undan strönd Svíþjóðar

Atli Ísleifsson skrifar
Stórt gat myndaðist á bakborðshlið ferjunnar.
Stórt gat myndaðist á bakborðshlið ferjunnar. Vísir/AFP
Olíuflutningaskip sigldi á farþegaferju undan vesturströnd Svíþjóðar í nótt. Stórt gat myndaðist á bakborðshlið ferjunnar og lak inn sjór.

Í frétt sænska ríkissjónvarpsins segir að enginn hafi slasast í árekstrinum, en 531 var um borð í ferjunni Stena Jutlandica.

Olíuflutningaskipið er í eigu félagsins Terntank, en ferjan, sem var á leið frá Fredrikshavn í Danmörku til Gautaborgar, í eigu Stena Lines. Málið er nú í rannsókn hjá lögreglu, en talsmaður félags farþegaferjunnar segir áhöfn olíuflutningaskipsins bera ábyrgð á árekstrinum.

Vindasamt hefur verið á fyrir utan Gautaborg, þar sem slysið varð, sem hefur torveldað að koma starfsmönnum lögreglu og siglingamálayfirvalda um borð í skipið. Kafarar eru þegar að störfum til að kanna umfang skemmda.

Um 12 þúsund tonn af bensíni og dísilolíu voru um borð í olíuflutningaskipinu sem svo virðist sem ekki hafi lekið úr skipinu.

Reiknað er með miklum seinkunum á ferjusiglingum milli Gautaborgar og Fredrikshavn á næstu dögum vegna árekstursins.

Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×