Erlent

Átök fyrir framan þinghúsið í Suður-Karólínu

Atli Ísleifsson skrifar
Fimm manns voru handteknir en að sögn lögreglu voru um tvö þúsund manns við þinghúsið þegar flest var.
Fimm manns voru handteknir en að sögn lögreglu voru um tvö þúsund manns við þinghúsið þegar flest var. Vísir/AFP
Til átaka kom fyrir utan þinghúsið í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum í gær þegar hópi úr réttindasamtökum svartra og hópi úr stærstu samtökum nýnasista í ríkinu lenti saman.

Fimm manns voru handteknir en að sögn lögreglu voru um tvö þúsund manns við þinghúsið þegar flest var.

Stríðsfáni Suðurríkjanna frá því í borgarastríðinu var fjarlægður af byggingunni í síðustu viku eftir fimmtíu ára deilur um notkun hans við opinberar byggingar.

Hópur réttindasamtaka svartra mótmælti öðru megin við þinghúsið og nýnasistar hinum megin og reyndi lögregla þannig að halda hópunum aðskildum. Þeir runnu hins vegar saman á lóð fyrir framan þinghúsið og þá varð skrattinn laus.

Um fimmtíu nýnasistar báru margir stríðsfána suðurríkjanna og nasistafána. Flytja þurfti sjö manns á sjúkrahús en ekki er vitað hvort einhverjir meiddust alvarlega.

Mikil spenna hefur ríkt í Suður-Karólínu frá því níu svartir Bandaríkjamenn voru nýlega skotnir til bana í sögulegri kirkju í höfuðborginni Charleston. En morðinginn sem er 21 árs er sagður hafa verið mjög upptekinn af táknum eins og stríðsfána Suðurríkjanna sem hefur verið fjarlægður af opinberum byggingum víðs vegar um Suðurríkin á undanförnum mánuðum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×