Innlent

Kattastuldur í Nátthaga: Brjóstarhaldari númer 34D á meðal sönnunargagna

Gissur Sigurðsson skrifar
Nettvaxin kona líklega potturinn og pannan í málinu.
Nettvaxin kona líklega potturinn og pannan í málinu. vísir/ólafur/lillý
Leit stendur nú yfir að fjórum hreinræktuðum Bengal köttum sem stolið var úr skemmu við bæinn Nátthaga í Ölfusi í gær. Brjóstahaldari númer 34D er á meðal sönnunargagna í málinu.

Ekki er enn vitað hvenær þjófarnir létu til skarar skríða þar sem Ólafur Njálsson, eigandi kattanna og ábúandi á Nátthaga var ekki heima og varð þess ekki áskynja fyrr en seint í gærkvöldi. Af ummerkjum telur hann að nettvaxin kona hafi verið potturinn og pannan í málinu.

„Fótsporin í snjónum eru eftir kvenmannsfót, númer 38 eða 39. Þessi fótspor eru allt í kringum skemmuna og í átt að bílnum. Þegar við skoðuðum hjólförin þá sáum við að þau hefðu fest bílinn,“ segir Ólafur en hann telur þjófana hafa verið tvo – karl og konu.

„Karlinn náði í verkfæri og skóflur og braut hjá mér þrjár skóflur við að moka snjó frá bílnum sínum og koma sér upp á þjóðveg aftur. Á leiðinni upp festu þau sig aftur og þar finn ég snærisbút sem virðist hafa slitnað þannig að það virðast hafa verið tveir bílar og að hinn hafi verið að draga þennan upp,“ segir hann.

Snærisbúturinn var þó ekki það eina sem Ólafur fann. „Í hjólförunum fann ég bláan brjóstahaldara í stærð 34D sem hafði rifnað í sundur. Hann hafði verið settur undir annað hjólið og í hinu hjólfarinu voru þunnar bómullarbuxur sem voru gráar með svörtu leopardsmynstri. Löggan tók þessar flíkur með sér þannig að það hefur gengið á ýmsu en þau hafa sjálfsagt sett fötin undir dekkin til að ná gripi,“ segir Ólafur og bætir við að bíllinn sé að öllum líkindum framhjóladrifinn.

Ólafur hefur um árabil stundað ræktun á Bengalköttum og metur hann tjónið á um það bil tvær milljónir króna, en hver kettlingur er seldur á 150 þúsund krónur. Bengalkettir eru álíka stórir og venjulegir kettir, en svipa mjög til stórra blettatígra, bæði á trýnið og flekki á feldi.


Tengdar fréttir

Fjórum bengalköttum stolið í Ölfusi

Brotist var inn í skemmu við bæinn Nátthaga í Ölfusi einhvern tímann á tímabilinu frá klukkan tvö í gærdag til klukkan sjö í gærkvöldi og þaðan stolið fjórum bengalköttum, tveimur högnum og tveimur læðum, sem þar eru notaðir til undaneldis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×