Innlent

Árni Páll segist vona að Sigríður Ingibjörg haldi áfram í stjórnmálum

þóra kristín ásgeirsdóttir skrifar
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sem skoraði hann á hólm í formannskjöri ætla að hittast á morgun og fara yfir stöðuna en hörð orð hafa fallið eftir kjörið.

Árni Páll segir að það sé hefð fyrir því að takast hraustlega á innan Samfylkingarinnar. Hann meti Sigríði Ingibjörgu mikils og voni að hún haldi áfram þátttöku í stjórnmálum. Sigríður Ingibjörg segist vera að íhuga stöðu sína og útilokar ekki að hún hætti í stjórnmálum í kjölfar harðrar gagnrýni á hana eftir að hún fór óvænt í formannsframboð á Landsfundi flokksins en þar munaði aðeins einu atkvæði á henni og Árna Páli Árnasyni formanni flokksins.

Í kjölfarið hefur verið harkalega að henni vegið og hún sökuð um af núverandi og fyrrverandi forystufólki í flokknum um að hafa sýnt formanninum banatilræði, stundað pólitísk undirmál , klækjastjórnmál og launráð. Nú síðast í morgun kvaddi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi formaður flokksins sér hljóðs á Facebook og sagði hana hafa nýtt sér glufu í reglum flokksins til að reyna að taka hann yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×