Erlent

Angela Merkel andvíg samkynja hjónaböndum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands. vísir/getty
Angela Merkel, kanslari Þýskaland, er þeirrar skoðunar að hjónaband eigi að vera skilgreint sem samband á milli karls og konu en ekki einstaklinga af sama kyni. Hún segist þó ekkert hafa á móti því að einstaklingar af sama kyni gifti sig borgaralega (e. civil partnership), líkt og lög í Þýskalandi leyfa, en samkynja hjónabönd eru ekki leyfð.

„Ég styð það heilshugar að allri mismunun verði eytt,“ sagði Merkel í viðtali sem birt var á Youtube á sunnudaginn. Hún sagði að margt hefði áunnist í réttindamálum samkynhneigðra á síðustu árum og minntist þess að fyrir 25 árum hefðu margir ekki þorað að koma út úr skápnum.

„Þetta er sem betur fer breytt og nú geturðu gift þig borgaralega. Fyrir mér hins vegar er hjónabandið á milli konu og karls sem búa saman. Þetta er mín skoðun en ég styð borgaralega giftingu samkynhneigðra,“ sagði Merkel og bætti við:

„Ég vil ekki mismunun heldur jafnrétti en ég geri ákveðinn greinarmun á einhverjum tímapunkti.“

Spyrillinn gekk þá á hana:

„Svo þú ert að segja: engin mismunun en við munum samt halda áfram að gera upp á milli þessara tveggja hópa?“

Merkel, sem Forbes-tímaritið hefur sagt að sé valdamesta kona í heimi, svaraði:

„Engin mismunun. Hjónaband er á milli karls og konu sem búa saman.“

Flokkur Angelu Merkel, CDU, er íhaldsflokkur sem aldrei hefur stutt lagafrumvörp þess efnis að hjónabönd samkynhneigðra verði leyfð í Þýskalandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×