Erlent

Pólitísk óvissa í Grikklandi og stjórnarflokkurinn klofinn

Heimir Már Pétursson skrifar
Pólitísk óvissa ríkir í Grikklandi eftir að Alexis Tsipras forsætisráðherra sagði af sér á fimmtudag og boðaði til þingkosninga í næsta mánuði. Þingmenn í vinstri armi flokksins hafa nú stofnað nýjan stjórnmálaflokk.

Flokkur Alexis Tsipras forsætisráðherra var stofnaður árið 2004 sem bandalag smáflokka til vinstri í grískum stjórnmálum. Flokkurinn vann sigur í síðustu þingkosningum í janúar á þessu ári með loforðum um að taka á gríðarlegum skuldavanda Grikkja án þess að ganga að ítrustu og íþyngjandi skilyrðum lánadrottna.

Síðan þá hefur stjórn Tsipras þurft að ganga að flestum  þeirra skilyrða sem Seðlabanki Evrópu, Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa sett, þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem lánapakka Evrópu var hafnað.

Tæplega þriðjungur þingmanna flokksins yst á vinstri vængnum tilkynntu í gær að þeir hafi stofnað nýjan stjórnmálaflokk, Sameiningarflokk alþýðu eða Alþýðubandalag.  En þessir þingmenn og nokkrir ráðherrar studdu ekki nauðsynleg frumvörp síns eigin flokks á gríska þinginu í sumar í tengslum við lánapakkann. Þeirra á meðal var Panagiotis Lafazanis fyrrverandi orkumálaráðherra sem leiðir hinn nýja klofningsflokk.

Þrátt fyrir allt nýtur Tsipras enn mikils stuðnings meðal almennings og fyrirsagnir dagblaðanna segja hann standa einan á móti öllum öðrum sem vilji draga mál á langinn. Talið er líklegt að kosið verði hinn 20. september sem verða þriðju þingkosningarnar í Grikklandi á þremur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×