Lífið

Viðurkenningin mikilvægust

Erla Björg Gunnarsdóttir og Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Samfélagsverðlaunin við hátíðlega athöfn.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Samfélagsverðlaunin við hátíðlega athöfn. vísir/ernir
Hetjur hvaðanæva af úr samfélaginu komu saman á afhendingu Samfélagsverðlaunum Fréttablaðsins.

Verðlaunahafarnir áttu það allir sameiginlegt að vera djúpt snortnir yfir því að tekið væri eftir verkum þeirra og ævistarfi. Verðlaunað var í fimm flokkum. 

Stígamótakonur sögðust finna fyrir miklum velvilja og sögðu viðurkenninguna blása þeim eldmóði í brjóst.vísir/ernir
Gefur aukinn kraft

Stígamót fengu Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins fyrir baráttu sína gegn kynferðisofbeldi. Samtökin fengu tólf hundruð þúsund í verðlaun.



„Fyrir utan að það kemur sér alltaf vel að fá svolítinn aur þá skiptir viðurkenningin ekki síður máli. Stígamót eru búin að vera í baráttunni í 25 ár en því miður er enn langt í land,“ segir Þórunn Þórarinsdóttir starfskona Stígamóta.

„Ef við mættum ráða væri búið að loka Stígamótum og kynferðisofbeldi væri ekki lengur til. Það er markmiðið þannig að það er mikil vinna fram undan. En við finnum fyrir miklum velvilja, það skiptir svo miklu máli.“ 

Þórunn segir þennan velvilja ekki hafa alltaf verið fyrir hendi.

„Frumkvöðlar Stígamóta mættu heilmiklum mótbyr í byrjun, í kringum 1990, enda var verið að fjalla um óþægileg mál. Þetta eru, hafa verið og eru enn oft best varðveittu leyndarmálin í samfélaginu. Þetta eru málefni sem eru ekki endilega þægileg, hvorki fyrir einstaklinga né samfélagið. Þannig að auðvitað mætum við ákveðnum hindrunum. Svona viðurkenning gefur manni fullan kraft til að yfirstíga slíkar hindranir.“

Hafdís Árnadóttir opnaði dyrnar á Kramhúsinu fyrir þrjátíu árum og hefur sagt já við hugmyndum síðan þá.
Þrjár kynslóðir í Kramhúsinu

Hafdís Árnadóttir fékk heiðursverðlaunin fyrir þrjátíu ára starf sitt í Kramhúsinu. 



Hafdísi Árnadóttur var þakkað fyrir að hreyfa við þjóðinni með starfi sínu í Kramhúsinu og hlaut heiðursverðlaun fyrir fjölmenningarlegt og skapandi starf. Hún tileinkaði starfsfólki sínu verðlaunin.

„Ég er alveg orðlaus. Alveg óskaplega auðmjúk, stolt og þakklát. En Kramhúsið væri ekki til ef ég hefði ekki svona gott fólk í kringum mig. Ég opnaði dyrnar að húsinu og starfsfólkið fær nýjar hugmyndir á hverjum degi. Ég er opin fyrir þessum hugmyndum enda er nei stopp, og já er áfram. Ég er meira í já-inu.“

Kramhúsið var opnað fyrir þrjátíu árum og í dag eru þrjár kynslóðir í húsinu.

„Fólk sem byrjaði fyrir þrjátíu árum er enn í tímum hjá mér. Svo eru börn þeirra hér og barnabörn,“ segir Hafdís og bætir við að Kramhúsið sé vissulega á margan hátt öðruvísi en aðrar þjálfunarstöðvar sem eru meira árangurstengdar. „Við erum með hús þar sem þú kemur til að vera, ekki verða. Það er engin áhersla að verða eitthvað sérstakt. Við búum fyrst og fremst til skapandi skilyrði, þar sem fólk fær að vera.“

Kári og Halldór fengu verðlaunagripi sem unnir voru í Ásgarði og auk þess sjónvarpsskjá frá Heimilistækjum, eins og aðrir verðlaunahafar.vísir/ernir
Upplýsing er besta leiðin

Kári og Halldór Auðar- og Svanssynir hlutu samfélagsverðlaun í flokknum Til atlögu gegn fordómum. 



„Langbesta leiðin til að eyða fordómum er að upplýsa fólk um hluti sem það hefur fordóma fyrir,“ segir Halldór Auðar- og Svansson. Kári bróðir hans tekur í sama streng.

„Það liggur í orðinu fordómar að þar er fólk að dæma eitthvað fyrirfram sem það þekkir ekki.“ Þetta mæla þeir bræður með bros á vör og hamingjusamir eftir að hafa tekið við samfélagsverðlaunum í flokknum Til atlögu gegn fordómum. Þau hlutu þeir fyrir að tjá sig á síðasta ári opinskátt um geðsjúkdóma sem þeir höfðu gengið í gegnum.

Báðir hafa bræðurnir orðið varir við að umræðan sem þeir komu af stað hafi vakið jákvæð viðbrögð víða í samfélaginu. Þeir ljúka líka lofsorði hvor á annan fyrir stuðninginn í veikindunum, meðal annars með daglegum heimsóknum á geðdeildina hvor til annars. „Orð Grettis: Ber er hver að baki nema sér bróður eigi, eiga vel við í okkar tilfelli,“ segir Kári.

Það var áhugamál hjá mér alla tíð að koma krökkunum út á dansgólfið og margir gamlir nemendur mínir minnast þess,“ segir Jón Freyr.vísir/ernir
Fór ótroðnar slóðir

Jón Freyr Þórarinsson, fyrrverandi skólastjóri, hlaut verðlaun í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar, meðal annars fyrir danskennslu í frítíma sínum. 



„Ég er þakklátur fyrir þessa viðurkenningu. Mér finnst hún hugguleg og skil ekki hvernig fólki datt í hug að fara að leita mig uppi. En ég lít á mig sem fulltrúa margra annarra sem vinna að einhverju svipuðu og ég hef verið að gera gegnum árin,“ segir Jón Freyr Þórarinsson, handhafi samfélagsverðlauna í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar. Hann starfaði í 45 ár í Laugarnesskóla, fyrst sem kennari, svo yfirkennari og síðast skólastjóri.

Jón Freyr kenndi nemendum dans í sjálfboðavinnu, ásamt konu sinni Matthildi Guðnýju Guðmundsdóttur, þar til hann varð skólastjóri, þá fékk hann ýmsa danskennara í skólann.

„Það var áhugamál hjá mér alla tíð að koma krökkunum út á dansgólfið og margir gamlir nemendur mínir minnast þess,“ segir hann. Það stemmir við tilnefningar sem blaðinu bárust þar sem Jón er lofaður fyrir að fara ótroðnar slóðir við kennslu. Þar segir meðal annars: „Hann kenndi okkur svo margt um lífið og um það að vera góður þjóðfélagsþegn. Við sem vorum í hans umsjá búum enn að hans umhyggju.“

Starfsfólk Grensásdeildar fjölmennti á afhendingu verðlaunanna.
Gaman að fá jákvæða umræðu

Starfsfólk Grensásdeildar Landspítalans var valið hvunndagshetjur ársins fyrir óeigingjarnt starf sitt við að koma fólki aftur út í lífið eftir slys og veikindi. 



Þessi verðlaun hafa mikla þýðingu fyrir okkur. Þetta hvetur starfsfólkið áfram, það fær viðurkenningu fyrir það sem það er að gera og leggja sig fram við alla daga, eins vel og það getur,“ segir Sigríður Guðmundsdóttir hjúkrunardeildarstjóri. „Þetta er mikil hvatning fyrir allt okkar starfsfólk. Umræðan um Landspítalann hefur oft verið neikvæð en þetta hjálpar okkur að halda áfram og gera betur.“

Sigrún Garðarsdóttir iðjuþjálfi bætir við að verðlaunin geri starfsfólkið sýnilegra. „Þrátt fyrir mikinn hraða, álag og ekki sérlega gott húsnæði þá höldum við bara áfram okkar starfi. Þetta er púst.“

Guðbjörg Lúðvíksdóttir læknir segir þetta líka mikilvægt fyrir sjálfa sjúklingana. „Það er gott að þeir fái að finna að það skipti fólk í samfélaginu miklu máli að þeir komist aftur út í lífið og að það sé talið mikilvægt að fólk fái góða endurhæfingu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×