Erlent

Fyrrum yfirmaður rúmenskra fangabúða fær tuttugu ára dóm

Atli Ísleifsson skrifar
Alexandru Visinescu segist ekki sjá eftir neinu.
Alexandru Visinescu segist ekki sjá eftir neinu. Vísir/AFP
Dómstóll í Rúmeníu hefur dæmt fyrrum yfirmann alræmdra fangabúða sem starfræktar voru á tímum kommúnistastjórnarinnar í Rumeníu í tuttugu ára fangelsi.

Réttarhöld í máli hins 89 ára Alexandru Visinescu hafa staðið yfir síðan í september, en hann var ákærður fyrir glæpi gegn mannkyni. Fréttastofa AFP greinir frá því að málið sé hið fyrsta sinnar tegundar frá falli stjórnar Nicolae Ceausescu árið 1989.

Saksóknarar fóru fram á 25 ára fangelsisdóm. Visinescu var ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu og hefur tíu daga til að ákveða hvort dómnum verði áfrýjað.

Útrýmingarstefna

Visinescu var sakaður um að fylgja útrýmingarstefnu í Ramnicu Sarat fangelsinu þar sem pólitískir andstæðingar kommúnistastjórnarinnar voru látnir dúsa inni.

Hann stjórnaði búðunum á árunum 1956 til 1963 og létust fjórtán fangar í stjórnartíð Visinescu.

Allir fangar í einangrun

Öllum föngum var haldið í einangrun og meinað að ræða við annað fólk. Þjáðust þeir af vannæringu auk þess að þeim var misþyrmt.

Rúmlega 600 þúsund manns sátu í fangelsi vegna pólitískra skoðana sinna í Rúmeníu á árunum 1945 og 1989.

Visinescu segist sjálfur einungis hafa verið að framfylgja skipunum yfirmanna sinna og ekki sjá eftir neinu eða þá ætla að biðjast afsökunar á gjörðum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×