Erlent

Obama boðinn velkominn heim í Kenya

Heimir Már Pétursson skrifar
Barack Obama forseti Bandaríkjanna er væntanlegur í opinbera heimsókn til Kenya í dag. Mikil tilhlökkun ríkir í landinu vegna komu forsetans en faðir hans er Kenyamaður og þar á hann fjölskyldu, meðal annars ömmu sem ætlar að elda fyrir barnabarnið þegar hann lítur við hjá ættingjum sínum.

Götur höfuðborgarinnar Nairobi hafa verið skreyttar með veggspjöldum með myndum af forsetanum þar sem hann er boðinn velkominn heim og bandarískir fánar skreyta aðalgötur. Kenya verður fyrsti viðkomustaður Obama í heimsókn hans til fleiri Afríkuríkja.

Margir Kenyabúar hafa sett saman óskalista yfir mál sem þeir óska eftir að Obama ræði í heimsókn sinni. Einn vill að forsetinn ræði framkvæmd á talningu atkvæða og kosningar og annar vill að hann ræði spillingu innan stjórnkerfisins.

Stjórnvöld í landinu hafa hins vegar komið því áleiðis hvað þau vilja alls ekki ræða við forsetann og það eru málefni samkynhneigðra. En mikli fordómar ríkja gegn þeim í Kenya og frumvarp liggur fyrir þinginu um að refsing við samkynhneigð geti í sumum tilvikum verið dauðadómur. Fjöldi samkynhneigðra er drepinn af bæði almenningi og lögreglu í landinu á ári hverju.

Opinberlega er Obama kominn til Kenya til að ræða öryggis- og efnahagsmál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×